Orðaforðakennsla með sögulestri fyrir börn með málþroskaröskun

Sigrún Alda Sigfúsdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir, Þorlákur Karlsson, Íris Ösp Bergþórsdóttir

Útdráttur


Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman áhrif beinnar og óbeinnar orðaforðakennslu hjá börnum með málþroskaröskun. Einkenni málþroskaröskunar er slök færni í tungumálinu, bæði í málskilningi og máltjáningu. Beina orðaforðakennslan fólst í að lesa sögubók og skoða hvort börn lærðu ný orð með því að útskýra og vinna sérstaklega með ákveðin markorð sem komu fyrir í textanum. Við óbeina kennslu var sama bók lesin án þess að staldra við markorðin eða útskýra þau. Þátttakendur voru tveir, báðir í elsta árgangi í leikskóla, og höfðu niðurstöður málþroskamælinga fyrir íhlutun sýnt slaka færni, bæði í málskilningi og máltjáningu. Kennslan fór fram í leikskóla barnanna fjórum sinnum í viku, í sex vikur. Niðurstöður leiddu í ljós að góður árangur náðist með þann orðaforða sem kenndur var með beinni kennslu. Orðaforði barnanna jókst hins vegar mun minna við óbeina kennslu. Sú þekking sem börnin höfðu tileinkað sér að lokinni íhlutun hélst að nokkru leyti mánuði eftir að íhlutun lauk. Mikilvægt er að lesa fyrir leikskólabörn og skapa aðstæður þar sem markvisst er verið að kenna ný orð. Jafnframt er nauðsynlegt að huga sérstaklega vel að börnum með slaka málfærni og auðvelda þeim að hlusta á sögu með því að útskýra orð jafnóðum. Þessar niðurstöður gefa vísbendingar um að til að auka orðaforða barna við sögulestur þurfi að útskýra ný orð sérstaklega. Foreldrar, kennarar og talmeinafræðingar geta ekki gert ráð fyrir að börn tileinki sér ný orð með því að heyra þau lesin í sögubók og geti sér til um þýðingu þeirra út frá samhengi.

Efnisorð


Bein og óbein orðaforðakennsla; málþroski; málþroskaröskun; lestur sögubóka

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/netla.2020.4

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir