„Kannski alltaf svona á bak við eyrað“: Kynjajafnréttismenntun í leikskólum

Sólveig Björg Pálsdóttir, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Útdráttur


Greinin fjallar um hvernig staðið er að kynjajafnréttismenntun elstu barna í leikskólum. Viðtöl voru tekin við sjö leikskólakennara í elstu deildum í sex leikskólum á höfuðborgarsvæðinu ásamt því að dvelja á vettvangi til að fá innsýn í starf deildar. Úrtak var valið til að fá sem fjölbreyttastan hóp leikskóla í fleiri en einu sveitarfélagi með í rannsóknina. Greint er frá helstu niðurstöðum í þremur efnisflokkum: Samfélagið og leikskólinn, kyngervi og leikefni og undirbúningur og aðstaða leikskólakennara. Í fyrsta efnisflokknum um samfélagið og leikskólann kom fram hjá viðmælendunum að hið kynjaða samfélag endurspeglaðist í leikskólastarfinu, til dæmis í kynjaskiptu búningavali. Leikskólakennararnir voru gagnrýnir á staðalímyndirnar í samfélaginu og töldu að fjölga þyrfti körlum í starfshópnum, það skapaði meiri fjölbreytni varðandi fyrirmyndir barnanna. Leikskólakennararnir voru gagnrýnir á mótun kyngervisins hjá börnunum og töldu það hlutverk sitt að efla gagnrýna hugsun barnanna. Í öðrum efnisflokknum, sem sneri að kyngervi og leikefni, reyndust leikskólakennararnir hafa talsvert sterka sýn á að leikefni og leikjaval festi börnin ekki í staðalímyndum. Þó bar einnig á leikefni sem sýndi hefðbundin kynhlutverk, svo sem púsl. Í þriðja efnisflokknum um undirbúning og aðstöðu leikskólakennaranna komu fram einkunnarorð í nafni greinarinnar um að kynjajafnréttismenntunin væri „kannski alltaf svona á bak við eyrað“; sem markaðist af því að gripin væru tækifæri í dagsins önn fremur en að fræðslan væri fyrir fram skipulögð. Rannsakendur álykta að kynjajafnréttismenntunin í leikskólunum sex hafi verið fremur ómarkviss. Hún virðist hafa verið á ábyrgð einstaklinga og var stundum ekki meðvituð. Hins vegar er áhugi til staðar, til dæmis í vali á leikefni og að baki þeirri hugmynd að grípa tækifærin þegar þau gefast. Höfundar telja mikilvægt að efla stofnanalega ábyrgð á kynjajafnréttismenntun barna og að leikskólarnir þurfi rækilegan stuðning til þess, ekki síst með fræðslu til starfsfólksins.

Efnisorð


kyngervi; kynhlutverk; leikskólar; staðalímyndir

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/netla.2020.1

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir