„Gagnlegast að sjá þessa hluti sem maður sér ekki venjulega“: Starfendarannsókn um mat á námi og vellíðan leikskólabarna af erlendum uppruna

Agnes Gústafsdóttir, Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir

Útdráttur


Þessi grein fjallar um starfendarannsókn sem framkvæmd var á einni deild í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu veturinn 2017‒2018. Alls tóku sjö starfsmenn þátt í þessum hluta rannsóknarinnar sem er hluti af stærri rannsóknarverkefni á vegum RannUng sem ber heitið Mat á námi og vellíðan barna og eru þátttökuskólarnir fimm talsins. Markmið rannsóknarverkefnisins í heild var að þróa leiðir til þess að meta nám og vellíðan barna í hverjum leikskóla fyrir sig. Þátttakendur, í þeim leikskóla sem hér er fjallað um, völdu að nýta námssöguskráningar og ákváðu að skoða sérstaklega nám og vellíðan barna af erlendum uppruna. Áhersla var lögð á að fylgjast með og skrá breytingaferlið sem átti sér stað.

Niðurstöðurnar benda til þess að námssöguskráningar geti nýst vel til þess að meta nám og vellíðan barna í leikskólum þar sem er fjölbreyttur barnahópur. Með námssöguskráningum lærði starfsfólk deildarinnar að lesa betur í margs konar tjáningu barna af erlendum uppruna sem gerði þeim kleift að hlusta betur eftir sjónarmiðum þessa barnahóps. Jafnframt sýna niðurstöðurnar að miklar hugarfarsbreytingar áttu sér stað hjá starfsfólkinu í gegnum ferli rannsóknarinnar. Þátttakan í starfendarannsókninni hafði áhrif á hugmyndir starfsfólksins um mat á námi og vellíðan barna og námssöguskráningarnar opnuðu augu þeirra fyrir styrkleikum og áhugasviði barnanna. Í gegnum ferli rannsóknarinnar urðu töluverðar breytingar á því hvað starfsfólkinu fannst mikilvægast að meta í leikskólastarfinu. Í lok rannsóknarinnar sá það mikilvægi þess að leggja áherslu á að meta þætti sem tengjast vellíðan barna betur en í upphafi. Þátttaka í rannsókninni virtist hafa meiri áhrif á hugmyndir leiðbeinenda um mat á námi og vellíðan barna en starfsmanna sem voru háskólamenntaðir.


Efnisorð


leikskóli; starfendarannsókn; fjölmenning í leikskóla; námssögur; mat; nám; vellíðan

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.6

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir