Stafrænt sambýli íslensku og ensku

Sigríður Sigurjónsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson

Útdráttur


Markmið öndvegisverkefnisins Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis, sem lýst er í þessari grein, er að kanna stöðu íslensku á tímum mikilla samfélags- og tæknibreytinga, með sérstöku tilliti til hugsanlegra áhrifa ensku, einkum í gegnum stafræna miðla. Í fyrsta lagi er reynt að komast að því hversu mikið mállegt ílag eða máláreiti málnotendur fá, bæði á íslensku og ensku. Í öðru lagi er viðhorf málnotenda kannað, bæði til íslensku og ensku. Í þriðja lagi er orðaforði þátttakenda kannaður, bæði íslenskur og enskur. Í fjórða lagi eru þátttakendur beðnir að leggja mat á ýmis málfræðileg atriði, t.d. beðnir að dæma margvíslegar setningar, og þannig reynt að komast að því hvort aukin enskunotkun í íslensku málsamfélagi nú til dags valdi breytingum á íslensku eða hraði málbreytingum sem hafnar voru fyrir daga snjalltækjabyltingarinnar.

Þessi atriði eru könnuð með fernu móti: Í fyrsta lagi með ítarlegri vefkönnun sem send var til 5.000 manna lagskipts handahófskennds úrtaks Íslendinga á aldrinum 3‒98 ára. Í öðru lagi með frekari könnunum og viðtölum við 400 manna sérvalið úrtak úr fyrrnefnda hópnum. Í þriðja lagi verður vefkönnunin opnuð öllum sem vilja og reynt með hjálp samfélagsmiðla að fá allt að 10% landsmanna til þátttöku. Í fjórða lagi eru svo rýnihópar og viðtöl við kennara.

Vefkönnuninni er lokið og verið er að vinna úr niðurstöðum hennar. Fyrstu niðurstöður benda til þess að verulegur munur sé á aldurshópum hvað varðar alla þá meginþætti sem kannaðir voru — ílag, viðhorf, orðaforða og mat á setningum. Nú er unnið að úrvinnslu gagna þannig að unnt verði að gera ítarlega grein fyrir ýmsum þáttum niðurstaðnanna og skoða hugsanlega fylgni milli þátta, t.d. milli ílags, viðhorfa og ýmissa mállegra þátta. Í þessari grein er fjallað um meginmarkmið verkefnisins, rannsóknaraðferðir og niðurstöður úr vefkönnun um skjá- og netnotkun barna, svo og um virka og óvirka enskunotkun þeirra.


Efnisorð


málsambýli; skjánotkun; máltaka; málbreytingar; ílag; viðhorf

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.29

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir