Þjónandi forysta og starfsánægja í framhaldsskólum

Sigrún Gunnarsdóttir, Sandra Borg Gunnarsdóttir

Útdráttur


Það er mikilvægt að stjórnun og forysta innan framhaldsskóla stuðli að árangri og vellíðan starfsfólks og nemenda. Þjónandi forysta er hugmyndafræði um samskipti, stjórnun og forystu með áherslu á sameiginlega ábyrgðarskyldu, sjálfsþekkingu og gagnkvæman stuðning. Margar vísbendingar eru um gagnsemi þjónandi forystu í tengslum við til dæmis starfsánægju og árangur teyma. Fáar rannsóknir liggja fyrir um þjónandi forystu innan menntastofnana hér á landi, en í ljósi vísbendinga í fyrri rannsóknum um gagnsemi þjónandi forystu var ákveðið að kanna vægi þjónandi forystu í framhaldsskólum og tengsl hennar við starfsánægju. Gerð var könnun meðal starfsmanna í sjö framhaldsskólum með spurningalistanum Organizational Leadership Assessment (OLA), sem mælir vægi þjónandi forystu á nokkrum sviðum skipulagsheildar, og jafnframt var starfsánægja metin. Könnunin tók til alls starfsfólks skólanna og voru þátttakendur 219. Flestir svarendur voru kennarar (80%), almennir starfsmenn voru 11% og stjórnendur 8%. Niðurstöður sýna að þátttakendur meta vægi undirþátta þjónandi forystu á bilinu 3,25 til 3,72 á kvarðanum 1 til 5, þannig að þeir telja að ýmis einkenni þjónandi forystu sé að finna í framhaldsskólunum. Skólastjórnendur mátu vægið mest og kennarar minnst. Starfsmenn framhaldsskólanna virðast almennt vera ánægðir í starfi (85,1%). Sterk jákvæð og marktæk tengsl mældust milli heildarvægis þjónandi forystu og starfsánægju og einnig milli allra undirþátta þjónandi forystu og starfsánægju. Niðurstöður staðfesta niðurstöður fyrri rannsókna og gefa vísbendingar um að eftir því sem vægi þjónandi forystu sé meira innan framhaldsskóla megi búast við meiri starfsánægju. Niðurstöðurnar eru framlag til þróunar þekkingar á þjónandi forystu og umræðu um árangursríkar leiðir til að styrkja framhaldsskóla og stuðla að ánægju starfsfólks.

Efnisorð


framhaldsskólar; þjónandi forysta; starfsánægja; starfsumhverfi

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.28

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir