Að byggja brýr og reisa veggi: Stigveldi námsgreina í ljósi viðhorfa framhaldsskólakennara til nemendaáhrifa

Valgerður S. Bjarnadóttir

Útdráttur


Það er gömul saga og ný að framtíðarmöguleikar og tækifæri ungs fólks byggist gjarnan á námsvali þess. Í því samhengi hefur stigveldi starfs- og bóknáms verið til umræðu (sjá t.d. Niemi og Rosvall, 2013; Nylund o.fl., 2018; Sych, 2016) en jafnframt hefur komið í ljós að ekki nýtur allt bóknám sömu virðingar í samfélaginu. Þannig hafa rannsóknir gefið til kynna að náttúrufræðibraut sé sú braut sem laðar að sér námslega sterka nemendur úr efri lögum samfélagsins (Beach, 2008; Bleazby, 2015; Weis, Cipollone og Jenkins, 2014) og að árangur í stærðfræði greiði götu ungs fólks að vel launuðum störfum í framtíðinni (Arnot og Reay, 2004; Lynch og McGarr, 2016; Straehler-Pohl og Gellert, 2013). Á sama tíma hefur bæði alþjóðleg og íslensk menntaorðræða og skilgreind pólitísk stefna í meiri mæli einkennst af áherslu á nemendamiðað nám og tækifæri nemenda til að hafa áhrif á nám sitt (Arnesen, Lahelma, Lundahl og Öhrn, 2014; Ministry of Education, Science and Culture, 2012).

Því er fróðlegt að skoða hvort og hvernig virðingarröð bóknámsgreina endurspeglast í viðhorfum framhaldsskólakennara til nemendaáhrifa. Sérstök áhersla er lögð á að draga fram viðhorf og sýn kennara úr mismunandi námsgreinum og af ólíkum brautum. Byggt er á viðtölum við 16 framhaldsskólakennara úr ólíkum framhaldsskólum sem allir eiga það sameiginlegt að kenna bóknámsgreinar á stúdentsprófsbrautum. Kenningalegur bakgrunnur greinarinnar byggist á kenningu Basil Bernsteins (2000) um félagsfræði menntunar.

Niðurstöðurnar sýna hvernig hugmyndir kennara um áhrif nemenda í ólíkum námsgreinum styðja við og viðhalda hefðbundinni stöðu greina. Svigrúm virðist til að fækka efnisþáttum og fara hægar yfir í stærðfræði á öðrum brautum meðan mikil festa er í hraða yfirferðar og inntaki í stærðfræði á náttúrufræðibrautum. Það sem virðist ekki síst ráða þessu eru fyrir fram mótaðar hugmyndir um skort á getu og áhuga nemenda af öðrum brautum á að læra stærðfræði. Kennarar í öðrum námgreinum en stærðfræði lýsa jafnframt kennsluaðferðum og skipulagi sem felur að einhverju leyti í sér tækifæri fyrir nemendur til að hafa áhrif á það hvað og hvernig þeir læra. Þau áhrif eru mismikil og fela jafnvel í sér ógn við sett námsmarkmið. Sterk og óbreytanleg staða stærðfræðinnar er jafnframt enn greinilegri í ljósi þess hvernig brýr hafa verið byggðar og samfagleg vinna aukin í tungumálum, félagsgreinum og raungreinum.

Þessar niðurstöður endurspegla íslenskan framhaldsskóla þar sem væntingar til námsgetu nemenda ráðast af vali þeirra á brautum. Þar sem skipulag stærðfræðiáfanga á náttúrufræðibraut einkennist af hraðri yfirferð, sem ekki allir ráða við, má segja að greinin þjóni hlutverki hliðvarðar, meðal annars fyrir þá nemendur sem hafa hug á raunvísindanámi. Greinin getur þannig verið umtalsverð hindrun á leið nemenda til brautskráningar af náttúrufræðibraut og jafnframt til frekari menntunar, bæði þar sem formlegar kröfur eru um undirbúning í raungreinum en jafnframt þar sem undirbúningur í raungreinum og stærðfræði er mikilvægur. Einnig er hætta á því að nemendur annarra brauta fari á mis við almenna menntun ef svigrúm til áhrifa er of mikið og ákvarðanir um inntak náms byggjast á fyrir fram gefnum hugmyndum um skort á námsgetu.


Efnisorð


framhaldsskólar; nemendaáhrif; stigveldi námsgreina; orðræða uppeldis og kennslu; þekkingartálmun

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.4

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir