Samvinna um læsi í leikskóla - Áhrif K-PALS á hljóðkerfisvitund, hljóðaþekkingu, hljóðafimi og umskráningarfærni

Anna Lind Pétursdóttir, Kristín Svanhildur Ólafsdóttir

Útdráttur


Í þessari rannsókn voru athuguð áhrif K-PALS (e. Kindergarten Peer-Assisted Learning Strategies) á hljóðkerfisvitund, stafaþekkingu, stafafimi, hljóðaþekkingu, hljóðafimi og umskráningarfærni 5–6 ára barna. Þátttakendur í rannsókninni voru 57 börn úr elsta árgangi fjögurra leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Tilraunahópur (20 stúlkur og 10 drengir) tók þátt í K-PALS tvisvar til fjórum sinnum í viku, alls 30– 45 æfingum sem vörðu um 30 mínútur hver. Samanburðarhópur (15 stúlkur og 12 drengir) fékk annars konar kennslu í undirstöðuþáttum lesturs, meðal annars með æfingum í litlum hópum til að efla hljóðkerfisvitund, stafa- og hljóðaþekkingu. Hljóðkerfisvitund, stafaþekking, stafafimi, hljóðaþekking, hljóðafimi, umskráning orða og orðleysa voru mæld að hausti og að vori hjá báðum hópunum. Tölfræðiúrvinnsla með ANCOVA-samvikagreiningu (þar sem stjórnað var fyrir stöðu barnanna að hausti) sýndi að tilraunahópurinn mældist marktækt hærri að vori en samanburðarhópurinn á öllum breytum öðrum en stafafimi þar sem enginn munur reyndist á hópunum. Að vori voru 90% tilraunahópsins farin að spreyta sig á umskráningu samanborið við 52% samanburðarhópsins. Áhrifastærðir reyndust vera eta2 = 0,14 til 0,36 sem endurspegla mikil áhrif K-PALS á færni þátttakenda. Niðurstöður eru í samræmi við erlendar rannsóknir og sýna að íslenska útgáfan af K-PALS er árangursrík leið til að efla hljóðkerfisvitund, stafaþekkingu, hljóðaþekkingu, hljóðafimi og umskráningarfærni íslenskra leikskólabarna. 


Efnisorð


Samvinnunám;leikskóli;hljóðkerfisvitund;stafaþekking;lestrarfærni

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir