Hvers vegna tekur fólk með stutta formlega skólagöngu síður þátt í símenntun? Reynsla fullorðinsfræðara

Hróbjartur Árnason, Halla Valgeirsdóttir

Útdráttur


Frá því á sjöunda áratug síðustu aldar hafa margir rannsakað þátttöku í fullorðinsfræðslu. Sú staðreynd að fullorðnir nota frítíma sinn til að taka þátt í skipulögðu námi þótti það áhugaverð að hún varð að einu stærsta rannsóknarsviðinu sem sneri að námi fullorðinna. En þegar sú hugmynd að ævinám væri einn af drifkröftum hagkerfisins varð þátttaka í símenntun fljótlega talin skylda hvers vinnandi manns. Þar með urðu þeir sem taka ekki þátt áhugavert rannsóknarefni. Þetta á einkum við um þá hópa samfélagsins sem hafa litla formlega menntun og yfirvöld í vestrænum samfélögum hafa reynt að hvetja til náms á fullorðinsárum. Þessi grein bætir nýju sjónarhorni við þá mynd sem rannsóknir á þessu sviði hafa dregið upp. Hér er litast um af sjónarhóli fullorðinsfræðara;fólks sem vinnur með og á í reglulegum samskiptum við fólk sem ýmist stundar nám á fullorðinsárum eða lætur það vera. Í greininni birtum við niðurstöður megindlegrar rannsóknar byggðri á rýnihópaviðtölum við samtals 22 fullorðinsfræðara sem starfa við átta símenntunarmiðstöðvar á Íslandi. Rannsóknin staðfestir vissulega margt sem fyrri rannsóknir hafa leitt í ljós en mikilvægustu niðurstöðurnar liggja í þáttum sem hafa ekki áður komið fram á jafn skýran hátt: Viðmælendur okkar hafa orðið þess varir að margir þeirra sem taka síður þátt í skipulagðri fræðslu á fullorðinsárum tjá langvarandi löngun til að menntast en halda sig fjarri námskostum vegna óöryggis, vantrausts á eigin námsgetu og neikvæðrar reynslu úr skóla. Nýlegar rannsóknir byggðar á könnunum og viðtölum við þennan hóp mögulegra nemenda hafa leitt í ljós atriði eins og „hindranir“ og fullyrðingar þeirra, sem taka ekki þátt, í þá veru að námskeið og annað skipulagt nám mæti ekki þörfum þeirra og henti ekki við þeirra aðstæður. Okkar niðurstöður benda til þess að verulegur hluti þeirra sem taka síður þátt í símenntun á Islandi geri það líka vegna neikvæðrar reynslu af skóla og lakrar sjálfsmyndar. Þessar niðurstöður ættu að hvetja símenntunarmiðstöðvar til að hanna, skipuleggja og kynna tilboð sín með þær í huga og sníða fræðslutilboð að þörfum fólks sem treystir sér illa til að læra í formlegu skólaumhverfi.


Efnisorð


nám fullorðinna;fullorðinsfræðsla;framhaldsfræðsla;símenntun;þátttaka;brotthvarf

Heildartexti:

PDF (English)

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir