„Til þess að aðrir virði mann verður maður að virða sig sjálfur“ Sýn grunnskólakennara á virðingu í starfi

Sigrún Erla Ólafsdóttir, Sigrún Aðalbjarnardóttir

Útdráttur


Meginmarkmið rannsóknarinnar var að rýna í sjálfsvirðingu kennara og reynslu þeirra af virðingu annarra fyrir kennarastarfinu. Jafnframt var markmiðið að leita eftir því hvernig þeir telja vænlegt að efla sjálfsvirðingu kennara og virðingu í samfélaginu fyrir kennarastarfinu. Viðtöl voru tekin við sex grunnskólakennara á höfuðborgarsvæðinu, þrjár konur og þrjá karla. Helstu niðurstöður eru þær að kennararnir sex telja sig búa yfir sjálfsvirðingu í starfi og álíta að það eigi við um flesta kennara; fáir endist í kennslu án sjálfsvirðingar. Þeir álíta að sumir þeirra kennara sem skortir sjálfsvirðingu tali niður til starfsins og/eða á afsakandi hátt um það. Þessi hópur sé fámennur en hávær. Einnig eru kennararnir þeirrar skoðunar að kennari, sem hefur ekki sjálfsvirðingu í starfi, sinni því ekki sem skyldi og geti það haft áhrif á nemendur, líðan þeirra, námsárangur og traust þeirra til kennarans. Þá telja kennararnir að nemendur og foreldrar sem þeir eru í samskiptum við beri flestir virðingu fyrir kennarastarfinu. Þeir upplifa aftur á móti að almenningur, sveitarstjórnir og menntamálayfirvöld geri það ekki og umræða um kennarastarfið sé oft neikvæð og ófagleg; þekking annarra á starfinu sé oft takmörkuð. Til að efla sjálfsvirðingu kennara og virðingu fyrir kennarastarfinu telja þeir m.a. að kennarar þurfi að efla jákvæða og faglega umræðu um kennarastarfið, bæði í fjölmiðlum og almennri umræðu, innan og utan kennarastéttarinnar. Þá eru þeir sammála um að fyrst og fremst þurfi að efla sjálfsvirðingu kennara enn frekar; það sé vís leið til að efla virðingu annarra fyrir kennarastarfinu.

Efnisorð


sjálfsvirðing kennara;virðing fyrir kennarastarfi;að efla virðingu fyrir kennarastarfi

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir