„Uss, ég er að vinna!“ - Áhrif einstaklingsmiðaðra stuðningsáætlana á námsástundun grunnskólanemenda með hegðunarerfiðleika

Guðrún Björg Ragnarsdóttir, Anna Lind Pétursdóttir

Útdráttur


Rannsökuð voru áhrif einstaklingsmiðaðra stuðningsáætlana með stighækkandi viðmiðum um frammistöðu á námsástundun grunnskólanemenda með hegðunarerfiðleika. Þátttakendur voru fjórir drengir á aldrinum sjö til átta ára sem höfðu sýnt hegðunarerfiðleika í fimm til sjö ár þrátt fyrir ýmis úrræði. Þrír þátttakenda voru greindir með ADHD, tveir með mótþróaþrjóskuröskun, einn með ódæmigerða einhverfu og einn með almenna kvíðaröskun og Touretteheilkenni. Virknimat fólst í viðtölum og beinum athugunum til að finna út hvað hefði áhrif á hegðunarerfiðleika þátttakendanna. Einstaklingsmiðaðar stuðningsáætlanir voru útbúnar með hliðsjón af niðurstöðum virknimats og fólu í sér úrræði sem beindust að bakgrunnsáhrifavöldum, breytingum á aðdraganda, þjálfun í viðeigandi hegðun og hvatningarkerfi. Kennarar fylgdu áætlununum eftir undir handleiðslu sérkennara og sérfræðings í atferlisíhlutun. Fjórar til sjö útgáfur af hvatningarkerfi með stighækkandi viðmiðum um frammistöðu voru notaðar í sex til þrettán vikur til að auka sjálfstæða námsástundun þátttakenda samhliða því að dregið var úr umfangi íhlutunar. Námsástundun þátttakenda var metin með endurteknum áhorfsmælingum í námsaðstæðum sem höfðu reynst þeim erfiðar. Einliðasnið með margföldu grunnskeiðssniði milli þátttakenda sýndi að námsástundun jókst hjá öllum þátttakendum þegar stuðningsáætlun byggð á virknimati var notuð. Að meðaltali jókst námsástundun um 53,4%, eða úr 55,9% í 85,8%. Aðlagaðar áhrifsstærðir reyndust d=1,37 að meðaltali en það endurspeglar mikil áhrif stuðningsáætlananna á námsástundun þátttakendanna. Í mælingum tveimur til fjórum vikum eftir að notkun hvatningarkerfa lauk mældist námsástundun þátttakenda 50 til 89,4% eða 75% að meðaltali. Niðurstöður eru í samræmi við fyrri rannsóknir og benda til þess að hægt sé að auka sjálfstæða námsástundun nemenda með stuðningsáætlunum sem byggjast á virknimati og viðhalda bættri færni með því að draga smám saman úr umfangi íhlutunar.


Efnisorð


virknimat;einstaklingsmiðuð stuðningsáætlun;hegðunarerfiðleikar;námsástundun;skóli án aðgreiningar;einliðasnið

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir