Kynjaðar væntingar til kvenna og karla í tveimur leikskólum

Laufey Axelsdóttir, Gyða Margrét Pétursdóttir

Útdráttur


Í greininni er fjallað um konur og karla sem starfa við uppeldi og kennslu í tveimur leikskólum á Íslandi. Lögð er áhersla á að skoða hvernig hugmyndir um karlmennsku og kvenleika hafa áhrif á vinnubrögð þeirra og viðhorf og væntingar sem þau mæta í starfi. Ætlunin er að varpa ljósi á stöðu jafnréttismála í þessum tveimur leikskólum. Byggt er á hugtökum Connell (1987), ríkjandi karlmennska og styðjandi kvenleiki. Eigindlegum rannsóknaraðferðum var beitt en gagnasöfnun í formi hálfstaðlaðra einstaklingsviðtala og þátttökuathugana hófst í september 2011 og stóð fram í apríl 2012. Tekin voru viðtöl við átta konur og tvo karla sem starfa í tveimur leikskólum og gerðar tvær þátttökuathuganir, ein í hvorum leikskóla. Niðurstöður benda til þess að verkaskipting í leikskólunum tveimur sé kynjuð þar sem hefð- bundnum hugmyndum um hlutverk kynjanna er viðhaldið innan þeirra. Orðræðan um karlana innan leikskólanna og áherslur þeirra er með jákvæðum formerkjum og þeim hrósað af konunum fyrir að sinna til dæmis fótbolta. Þessi stuðningur skapar körlunum ákveðna sérstöðu í leikskólunum tveimur þar sem sambærileg orðræða á sér ekki stað um konurnar. Orðræðan um áherslur kvennanna á líkamlega umönnun, eftirlit og foreldrasamskipti var oft með neikvæðum formerkjum. Umræðan var lituð eðlishyggju: talað var um móðureðlið sem áhrifaþátt í starfsvali og að kynin væru ólík og þyrftu þar af leiðandi ólík verkefni. Einnig kom fram að karlkyns starfsmenn í leikskólunum tveimur mæta fordómum en það bendir til þess að starfið samræmist illa hugmyndum samfélagsins um karlmennskuna. Umræðan gefur til kynna að fólk virðist eiga erfitt með að sjá það fyrir sér að karlar sem sækjast eftir starfi í leikskólum geri það af áhuga á umönnun og velferð barna heldur hljóti annarleg sjónarmið að búa þar að baki.

Efnisorð


leikskólar; kyngervi; kynhlutverk; verkaskipting; ríkjandi karlmennska; styðjandi kvenleiki

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir