Verkfæri þjóðminninga: Tyrkjaránið í skólabókunum – Fyrri hluti

Þorsteinn Helgason

Útdráttur


Kennslubækur í skólum og önnur námsgögn eru hagnýtt tæki í höndum kennara og nemenda en þær, ekki síst sögukennslubækur, eru einnig vitnisburður um við- horf í samfélagi hvers tíma vegna stöðu sinnar sem viðurkennd og jafnvel kanóní- seruð þekking sem höfundar telja sér skylt að koma á framfæri og þjóðfélagsleg kvöð segir til um. Í þessari rannsókn er könnuð umfjöllun um ákveðinn atburð í sögu Íslands, Tyrkjaránið árið 1627. Teknar eru til athugunar allar kennslubækur sem til náðist frá 1880 til 2010 þar sem tímabil ránsins er á dagskrá. Í fyrsta hluta, sem hér liggur fyrir, er numið staðar um 1970. Í fyrstu kennslubókum fram yfir aldamótin 1900 var frásögnin í mótun og hafði ekki tekið á sig mót þjóðernisviðhorfa af fullum þunga. Það beið einkum Íslandssögu Jónasar Jónssonar frá Hriflu sem kom fyrst út 1916–1918 og reyndist lífseigust flestra kennslubóka. Texti Jónasar er greindur í lengra máli en annað efni þar sem hann hefur lengi verið viðmið í söguritun á landinu. Frásögn hans er mjög læsileg en jafnframt hlaðin mælskulistarbrögðum þar sem hagræðing, hliðrun, hálfsögur og þögn eru veigamiklir þættir. Þegar litið er á heildina kemur upp mynd af þrískiptingu þátttakendanna: grimmlyndum ræningjum, kúguðum Íslendingum (þó með vissa sjálfsbjargarviðleitni) og dáðlausum Dönum (með „hyski sínu“). Lesandanum/barninu gefst færi á að samsama sig „sínu“ fólki og greina sig frá grimmum óaldarlýð og duglausum Dönum. Þeim sem næst fjölluðu um Tyrkjaránið tókst ekki að heilla lesendur að sama skapi og Jónas enda var þjóðernismóðurinn runninn af þeim. Nánast alltaf var þessi atburður þó ómissandi í sögukennslubókunum og kallaði á myndræna framsetningu í Sögunni okkar árið 1960 með samtímaskírskotunum. Hún bendir fram til fjölbreyttara úrvals kennslubóka eftir 1960 sem fjallað verður um í næstu grein.

Efnisorð


Tyrkjaránið 1627; korsarar; sjórán; kennslubækur; námsgögn; textagreining; sameiginleg minning

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir