„Engar hendur, ekkert súkkulaði“ - Kyngervi, hörundslitur, fötlun og stétt í kvikmyndinni Intouchables

Kristín Björnsdóttir, Kristín Stella L’orange

Útdráttur


Samhengi menningar og fötlunar er áhugavert viðfangsefni og með því að skoða mismunandi menningarafurðir er hægt að fá vísbendingar um gildi og viðmið samfélaga. Leiknar kvikmyndir eru dæmi um slíka menningarafurð, geta gefið vísbendingar um tíðarandann og haft áhrif á viðhorf almennings. Í greininni verður rýnt í frönsku kvikmyndina Intouchables sem var frumsýnd árið 2011, sló mörg að- sóknarmet og var tilnefnd til fjölda verðlauna. Myndin fjallar um fatlaðan auðkýfing og aðstoðarmann hans, sem er „ómenntaður“ innflytjandi frá Senegal og hefur enga faglega þekkingu á því hvernig aðstoða eigi fatlað fólk í daglegu lífi. Birtingarmyndir fatlaðs fólks í kvikmyndum byggja oft og tíðum á staðalímyndum um hið „afbrigðilega“ en slíkar staðalímyndir má einnig finna um aðra minnihlutahópa. Í kvikmyndinni er aðalsögupersónunum stillt upp sem andstæðupörum — fátækur og ríkur, ófatlaður og fatlaður, svartur og hvítur — og með því að beita kenningum um samtvinnun er í þessari grein leitast við að lýsa því hvernig þessar hugsmíðar tvinnast saman og gefa vísbendingar um ríkjandi kynjamisrétti, kynþáttafordóma, hæfishroka og stéttahroka. Þó að kvikmyndin kunni á yfirborðinu að virðast einföld saga tveggja ólíkra manna, má greina í henna flókin samfélagsmynstur mismununar og forréttinda þegar betur er að gáð. Í greininni eru færð rök fyrir því hvernig myndin hvort tveggja ýtir undir og grefur undan ríkjandi hugmyndafræði, allt eftir því frá hvaða sjónarhorni á hana er horft.

Efnisorð


kyngervi; hörundslitur; fötlun; stétt; kvikmyndir

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir