Tómstundamenntun

Höfundar

  • Vanda Sigurgeirsdóttir

Útdráttur

Eitt af grunnhugtökunum í náminu í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands er tómstundamenntun (e. leisure education). Í stuttu máli felst tómstundamenntun í því að kenna einstaklingum að nota frítíma sinn á jákvæðan og uppbyggjandi hátt með það að markmiði að auka lífsgæði (Leitner og Leitner, 2012). Tómstundamenntun getur bæði verið formleg og óformleg (AAPAR, 2011; Ruskin og Sivan, 1995). Í þessari grein verður aðallega fjallað um formlega tómstundamenntun, sem er tiltekið ferli, byggt á fyrirfram ákveðnu innihaldi og kennsluaðferðum (Stumbo, Kim og Kim, 2011). Hér á landi virðast flestir vera sammála um mikilvægi þess að fólk búi sig undir framtíðarstarf og litast skólakerfið töluvert af því. Það sama virðist ekki eiga við um frítímann því formleg tómstundamenntun hefur ekki náð fótfestu hér á landi. Mikilvægt er að bæta úr þessu vegna þess að í fyrsta lagi sýna rannsóknir að við eyðum mun meiri tíma í frítíma en flestir gera sér grein fyrir, meira en tvöfalt meiri tíma en í skóla og atvinnu samanlagt (sjá t.d. Larson, 2000; Leitner og Leitner, 2012; Weiskopf, 1982). Til að mynda sýndi rannsókn Weiskopf (1982) að miðað við 70 ára aldur eyðir meðalmaður 27 árum í frítíma, 7,33 árum í vinnu og 4,33 árum í formlega menntun. Því er ljóst að frítíminn er stór þáttur í lífi fólks. Í öðru lagi sýna rannsóknir að það hvernig frítímanum er varið getur haft jákvæð eða neikvæð áhrif á lífsgæði, vellíðan, andlega og líkamlega heilsu, svo og hamingju og lífsgleði (Dattilo, 2008; Leitner og Leitner, 2012; Mannel, 2006; Ponde og Santana, 2000). Flestir gera sér líklega grein fyrir mikilvægi frítímans en eigi að síður eru margir sem nota frítíma sinn á neikvæðan hátt. Í tómstundafræðunum kallast þetta frítímatengd vandamál (e. leisure-related problems). Með því er átt við ýmsa andfélagslega eða heilsuspillandi hegðun sem fólk temur sér í frítíma sínum, t.d. neyslu áfengis, eiturlyfjaneyslu, spilafíkn, ofbeldi, hreyfingarleysi, skeytingarleysi eða doða (Leitner og Leitner, 2012). Frítímatengd vandamál geta haft verulega slæm og kostnaðarsöm áhrif á einstaklinga og samfélagið í heild (Leitner og Leitner, 2012). Í þessu samhengi benda fræðimenn á að það er ekki meðfætt að nota frítímann á jákvæðan og uppbyggjandi hátt og til að bæta úr því sé árangursríkast að bjóða upp á tómstundamenntun, bæði í skólakerfinu en einnig fyrir hópa sem þurfa sérstaklega á því að halda, t.d. aldraða, fatlaða, fanga, fíkla og unglinga í áhættuhópum (AAPAR, 2011; Caldwell, Bradley og Coffman, 2009; Dattilo, 2002, 2008; Markus, 2000; Ruskin, 2000; Ruskin og Sivan, 2002; Sivan, 2000). Markmið þessarar greinar er að færa rök fyrir mikilvægi tómstundamenntunar og einnig að benda á að slíka menntun ætti að byggja upp innan skólakerfisins á Íslandi, og á meðferðarstofnunum, í fangelsum, meðal aldraðra, atvinnulausra, fatlaðra, innflytjenda og fleiri hópa sem búa við hindranir þegar kemur að þátttöku í tómstundum og glíma auk þess við ýmis frítímatengd vandamál. Leitner og Leitner (2012) halda því fram að beini kostnaðurinn sem slíkri innleiðingu myndi fylgja sé mun lægri en kostnaður samfélagsins vegna frítímatengdra vandamála.

Niðurhal

Útgefið

2015-09-20