Viðhorf ungmenna í íslensku fjölmenningarsamfélagi til menningar- og trúarlegs margbreytileika

Höfundar

  • Hanna Ragnarsdóttir
  • Gunnar J. Gunnarsson
  • Gunnar E. Finnbogason
  • Halla Jónsdóttir

Lykilorð:

ungmenni, íslenskt samfélag, menningar- og trúarlegur margbreytileiki, jafnrétti, mannréttindi

Útdráttur

Breytingar á samfélögum nútímans í átt til aukins fjölbreytileika hafa víðtæk áhrif á líf ungs fólks. Í íslensku samfélagi hefur hlutfall íbúa sem ekki hafa íslenskan ríkisborgararétt aukist undanfarna áratugi (Hagstofa Íslands, 2015a) og trúarlegur fjölbreytileiki vaxið (Hagstofa Íslands, 2015b). Markmið greinarinnar er að lýsa viðhorfum ungmenna til fjölbreytileika fólks í íslensku samfélagi hvað varðar uppruna og trúarbrögð og viðhorf þeirra til trúariðkunar, jafnréttis, frelsis og mannréttinda. Beitt er þverfaglegri nálgun trúaruppeldisfræði, fjölmenningarfræði og uppeldisfræði. Notuð eru gögn úr stórri rannsókn á lífsviðhorfum og lífsgildum ungs fólks í íslensku fjölmenningarsamfélagi þar sem aðferðir voru blandaðar, megindlegar og eigindlegar. Fyrri hluti rannsóknarinnar var viðhorfakönnun í sjö framhaldsskólum. Niðurstöður úr viðhorfakönnuninni voru grundvöllur síðari hluta rannsóknarinnar þar sem gögnum var safnað í rýnihópaviðtölum við konur og karla af ólíkum uppruna í fimm af sömu skólum árin 2013 og 2014. Í greininni er fjallað um niðurstöður úr rýnihópaviðtölunum og þær bornar saman við nokkrar niðurstöður viðhorfakönnunarinnar. Niðurstöður benda til þess að unga fólkið sé jákvætt gagnvart menningar- og trúarlegum fjölbreytileika.

Um höfund (biographies)

Hanna Ragnarsdóttir

Hanna Ragnarsdóttir (hannar@hi.is) er prófessor í fjölmenningarfræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk M.Sc.-prófi í mannfræði frá London School of Economics and Political Science árið 1986 og Dr.philos-prófi í menntunarfræði frá Háskólanum í Osló árið 2007. Rannsóknir hennar hafa einkum snúist um börn og fullorðna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi og skólum og ýmsa þætti fjölmenningarlegs skólastarfs.

Gunnar J. Gunnarsson

Gunnar J. Gunnarsson (gunnarjg@hi.is) er prófessor í trúarbragðafræði og trúarbragðakennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk prófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1978 og doktorsprófi frá Stokkhólmsháskóla 2011. Í rannsóknum hefur megináherslan verið á trúarbragðafræðslu í fjölmenningarsamfélagi og á lífsviðhorf og gildismat ungs fólks.

Gunnar E. Finnbogason

Gunnar E. Finnbogason (gef@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk M.Sc.-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskólanum í Uppsölum í Svíþjóð árið 1984 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1995. Rannsóknir hans hafa aðallega tengst menntapólitík/menntastefnum, hugmyndafræði menntunar, námskrárfræðum, gildum/miðlun gilda, réttindum barna og Barnasáttmálanum.

Halla Jónsdóttir

Halla Jónsdóttir (halla@hi.is) er aðjúnkt og starfar við kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún er með meistaragráðu og licentiatgráðu í hugmynda- og vísindasögu frá Uppsalaháskóla. Hún hefur rúmlega 20 ára reynslu af kennslu í grunnskóla og framhaldsskóla auk starfa við námsefnisgerð og námskrárvinnu. Rannsóknir hennar eru á sviði kennslufræði, fagmennsku, kennaramenntunar, fjölmenningar, lýðræðis, lífsleikni og siðfræði í skólastarfi.

Niðurhal

Útgefið

2016-12-16

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar