Virk námskrá í íslensku í 6. og 7. bekk grunnskóla í ljósi samræmda íslenskuprófsins í 7. bekk

Höfundar

  • Rúnar Sigþórsson

Útdráttur

Samræmd próf í núverandi mynd voru tekin upp við lok skyldunámsins árið 1977 og árið 1996 í 4. og 7. bekk. Í þessari grein er sagt frá rannsókn sem beindist að því að kanna hvaða mark íslenskuprófið í 7. bekk setti á íslenskukennslu í 6. og 7. bekk. Rannsóknin var eigindleg tilviksrannsókn í fjórum grunnskólum. Rætt var við kennara og nemendur og gerðar vettvangsathuganir. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til þess að inntak íslenskukennslunnar einkenndist af skýrri aðgreiningu efnisþátta og mikilli áherslu á málfræði og stafsetningu. Í þremur skólanna einkenndist kennslutilhögun í málfræði af stuttum innlögnum kennara frá töflu og einstaklingsvinnu nemenda í verkefnabækur. Í bókmenntum voru lesnar sögur og nemendur svöruðu skriflegum spurningum. Í fjórða skólanum var meira lagt upp úr þemavinnu og samþættingu en sú áhersla var látin víkja í aðdraganda prófsins í 7. bekk. Í stórum dráttum fylgdust nemendur að í kennslubókunum. Stundum var þó bætt við verkefnum eða dregið úr kröfum til að mæta misjöfnun námshraða. Kennarar settu kennslutilhögun sína í 6. bekk ekki beinlínis í samband við samræmda prófið. Þó fór ekki milli mála að í aðdraganda prófsins í 7. bekk tók íslenskukennslan mið af þeirri hugmynd að unnt væri að bæta árangur nemenda með því að kenna og læra beinlínis undir prófið. Umræða nemenda um íslenskunámið var lituð af sömu hugmynd. Rannsóknin var hluti af stærra rannsóknarverkefni sem lauk 2008 og beindist einnig að kennslu í náttúrufræði og íslensku á unglingastigi.1 Athygli vekur að þrátt fyrir ólíkan tilgang samræmdu prófanna í 7. og 10. bekk, þegar rannsóknin var gerð, hafði íslenskukennslan í 6. og 7. bekk og orðræða nemenda um prófið öll sömu megineinkenni og á unglingastiginu. Þetta vekur spurningar um raunveruleg áhrif samræmdu prófanna á íslenskukennslu og að hve miklu leyti hún mótist af gróinni hefð fyrir kennsluháttum af því tagi sem lýst er í greininni.

Niðurhal

Útgefið

2015-11-22

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar