„Kannski erum við orðnar svo miklar strákastelpur að það haga sér allir eins“ Um orðræðu og áhrifavalda í menningu raun- og tæknivísindagreina

Höfundar

  • Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir
  • Þorgerður Einarsdóttir

Útdráttur

Það er víðtækt og lífseigt mynstur að strákar sækja í raun- og tæknigreinar, stærðfræði og náttúrufræði, en stelpur í hug- og félagsvísindi, heilbrigðisvísindi og menntunarfræði. Ísland er hér engin undantekning. Háskólar víða um heim hafa hrundið af stað átaksverkefnum til að leiðrétta þessa kynjaskekkju, þó oftast með litlum árangri. Í flestum tilvikum er um að ræða átaksverkefni í kynningum og auglýsingum sem beinast að stúlkum í þeim tilgangi að hvetja þær til að velja raunvísindi. Í auknum mæli er sjónum nú beint að kerfislægum hindrunum, svo sem orðræðu sem þrífst innan vísindagreinanna og menningunni sem loðir við greinarnar. Hér verður greint frá niðurstöðum meistararannsóknar í kynjafræði sem fjallaði um menningu og orðræðu innan raunvísinda í íslensku háskólasamfélagi. Greinarnar sem rannsóknin tók til voru eðlisfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, stærðfræði og tölvunarfræði. Rannsóknin var eigindleg viðtalsrannsókn unnin í anda etnógrafíu félagslegra tengsla og byggðist á opnum viðtölum við tíu kvenstúdenta. Leitast var við að greina félagslega og menningarlega áhrifavalda í daglegu lífi kvenstúdenta í raungreinum. Í ljós kom að fjölbreytt orðræða einkennir menningu deildanna. Niðurstöðurnar sýna jafnframt að karllæg viðmið eru ráðandi innan raunvísindageirans og endurspeglast það bæði í jafningjamenningu og námstilhögun. Sú orðræða og menning sem ríkjandi er innan greinanna á þátt í að viðhalda núverandi kynjamynstri. Til að komast inn í félagslíf og eignast vini verða nemendur að ganga í takt við viðteknar hefðir og jafnvel sætta sig við grófan eða hrokafullan húmor. Þetta getur reynst hindrun fyrir þau sem ekki samsama sig karllægri ímynd. Ríkjandi einstaklingshyggja litar umræðu um jafnréttismál og endurspeglar þá sýn að jafnréttisaðgerðir séu óþarfar, og jafnvel óréttmætar.

Niðurhal

Útgefið

2015-11-22

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar