Samfélag jafningja: Uppbygging lærdómssamfélags í leikskóla

Höfundar

  • Svava Björg Mörk
  • Rúnar Sigþórsson

Útdráttur

Í þessari grein er sagt frá niðurstöðum starfendarannsóknar á uppbyggingu lærdómssamfélags í leikskólanum Bjarma. Með lærdómssamfélagi er hér átt við samfélag kennara sem lærir stöðugt af starfinu og leitar leiða til að gera betur með því að ígrunda og rannsaka eigin starfshætti, þar sem samskipti, samábyrgð og sameiginleg sýn á nemandann, möguleika hans og velferð eru í fyrirrúmi. Markmið greinarinnar er að svara þeirri meginspurningu hvort og þá hvernig hægt sé að byggja upp lærdómssamfélag sem starfar í anda Reggio Emilia með því að nota skólaþróunarlíkan sem miðar að því að innleiða hugtök um skólagreindir sem lýst er í bók MacGilchrist, Myers og Reed (2004), The Intelligent School. Rannsóknargögnin voru fundargerðir, viðtöl, upptökur af fundum, dagbókarskrif, verkefni sem unnin voru á kennarafundum og mat rýnihóps sem hittist í lok rannsóknartímabilsins. Meginniðurstöður rannsóknarinnar voru þær að skólagreindalíkanið væri vel til þess fallið að byggja upp lærdómssamfélag sem starfar í anda Reggio Emilia. Kennarar töldu sig hafa eflst sem fagmenn og í skólasamfélaginu tókst að byggja upp áherslu á samræður, samvinnu, dreifða forystu og ábyrgð, traust, umhyggju og virðingu en það eru allt þættir sem einkenna lærdómssamfélög. Enn fremur sýndu niðurstöður að jöfn tækifæri til náms og starfsþróunar innan skólans væru nauðsynleg kennarasamfélaginu til að byggja upp samfélag sem lærir.

Niðurhal

Útgefið

2015-11-22

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar