Breytingar á verkaskiptingu á heimili meðal starfandi feðra og mæðra í fyrstu bylgju COVID-19
Lykilorð:
COVID-19, samþætting launavinnu og umönnunarábyrgðar, umönnun, heimilisstörf, fjarvinnaÚtdráttur
COVID-19 hafði í för með sér meiriháttar breytingar á högum fólks. Faraldurinn raskaði atvinnu- og heimilislífi með lokun vinnustaða, aukinni heimavinnu og skertri þjónustu umönnunaraðila. Að frumkvæði Utrecht-háskólans var hrint úr vör fjölþjóðlegri rannsókn sem ber heitið „Gender (In)equality in Times of COVID-19“. Lagður var spurningalisti fyrir foreldra um aðstæður þeirra í launaðri vinnu, skiptingu heimilisstarfa og umönnunar og samþættingu launavinnu og umönnunarábyrgðar, auk fleiri þátta. Á Íslandi var könnunin framkvæmd af Gallup eftir að samkomubanni lauk í kjölfar fyrstu bylgju í maí 2020. Í þessari grein eru áhrif farsóttarinnar á verkaskiptingu starfandi foreldra í sambúð skoðuð hvað varðar umönnun, heimilisstörf og samþættingu launavinnu og umönnunarábyrgðar. Í ljósi erlendra niðurstaðna eru áhrif farsóttarinnar á þessa þætti greind eftir því hvar foreldrar inntu starf sitt af hendi í farsóttinni; hvort þeir unnu fjarvinnu heima eða unnu áfram á vinnustaðnum. Meginniðurstöður sýna að lítill kynbundinn munur kemur fram varðandi það hvort fólk vann fjarvinnu heima eða á vinnustaðnum. Mikill kynbundinn munur kom á hinn bóginn fram hvað varðar umönnun og heimilisstörf, bæði fyrir farsóttina og eftir að hún skall á. Í samræmi við nýlegar erlendar rannsóknir á áhrifum COVID-19 benda niðurstöður til þess að skipting heimilisstarfa milli feðra og mæðra hafi orðið jafnari við faraldurinn: Feður sem unnu heima sem áttu maka sem unnu áfram á vinnustaðnum juku hlutdeild sína í heimilisstörfum og mæður sem unnu á vinnustaðnum en áttu maka sem vann heima drógu úr hlutdeild sinni. Ekki urðu sams konar breytingar á hvernig foreldrar deildu með sér umönnun barna. Samþætting launavinnu og umönnunarábyrgðar varð erfiðari eftir farsóttina og gekk verr hjá foreldrum ungra barna og hjá foreldrum sem unnu heima. Niðurstaða fjölbreytugreiningar sýnir að samþætting launavinnu og umönnunarábyrgðar versnaði sérstaklega meðal mæðra sem unnu fjarvinnu heima og er það í samræmi við erlendar rannsóknir.
Niðurhal
Útgefið
Hvernig skal vitna í
Tölublað
Kafli
Leyfi
Greinar í tímaritnu eru gefnar út undir leyfinu(Creative Commons Attribution-NonCommercial-ShareAlike 4.0 International License).