Glæðing dygða í hverri þraut. Um tengsl íþrótta og kristinnar trúar

Höfundar

  • Guðmundur Sæmundsson

Útdráttur

Að sönnu fer ekki mikið fyrir íþróttum í hinni helgu bók, að minnsta kosti ekki í þeirri merkingu sem okkur er töm. Frásögnin af glímu þeirra Davíðs og Golíats má þó skoða sem eins konar íþróttakeppni þess tíma. Tengsl íslensku kirkjunnar við íþróttir á sér margra áratuga sögu. Prestar kirkjunnar tóku til að mynda margir þátt í stofnun, uppbygg-ingu og stefnumótun ungmennafélagshreyfingarinnar í byrjun 20. aldar. Sterkustu áhrifin voru þó þau sem tengjast æskulýðsfrömuðinum séra Friðriki Friðrikssyni (1868–1961). Í greininni verður fjallað um tengsl íþrótta og kristinnar trúar og þau sett í samhengi við aðra þætti íslenskrar menningar. Rannsóknarspurning greinarinnar er: Hvaða tengsl má greina milli íþrótta á Íslandi og kristinnar trúar? Fjallað er um hugtökin „trú“ og „dygð“ og hetjugildi íslenskra fornbókmennta. Greint er frá séra Friðriki Friðrikssyni, helstu ævi-atriðum og skoðunum hans og einnig ritum hans, einkum skáldsögunni „Keppinautar“ sem fjallar um stofnun knattspyrnufélags í litlu bandarísku þorpi. Bókin hefur mjög sterkan siðferðisboðskap, auk hins kristilega, og boðar heiðarleika og drengskap, fallegar hugsanir, bindindi, hófsemi og leikgleði. Þá eru rökstudd tengsl íþrótta og trúar sem tveggja tilfinningabundinna samfélagsþátta. Í lokin er drepið á íþróttastarf innan íslenskrar kirkju samtímans og nefnt að almennt megi ef til vill halda því fram að kirkjan hafi ekki tekið við þeim kyndli sem séra Friðrik rétti henni.

Niðurhal

Útgefið

2015-01-15