Litanía

Höfundar

  • Einar Sigurbjörnsson Guðfræðistofnun Háskóla Íslands

Útdráttur

Lítanía er sérstakt bænarform sem er fornt að uppruna og felst í að flutt er röð bæna og ákalla og þeim svarað með svörum svo sem „Frelsa oss, Drottinn“, „Hjálpa oss, Drottinn“ eða „Bænheyr oss, Drottinn“. Á miðöldum tengdust lítaníur yfirbótarkerfi kirkjunnar sem siðbótin gagnrýndi. Lúther hélt hins vegar upp á lítaníuna sem bænarform og útbjó árið 1529 lítaníu bæði á latínu til notkunar í skólum og í dómkirkjum og á þýsku til notkunar í sóknarkirkjunum. Lítaníuna átti að syngja á sérstökum bænadögum þegar einhver neyð væri uppi og eins um föstuna. Lítanía Lúthers var þýdd á íslensku á 16. öld og notuð á ákveðnum tilskipuðum dögum allt til loka 18. aldar. Tónskáldið séra Bjarni Þorsteinsson endurskoðaði lítaníuna, einfaldaði texta hennar og færði í nýjan tónlistar-búning sem reynir mikið bæði á prest (forsöngvara) og kór. Lengi fram eftir 20. öldinni var lítanían sungin við föstuguðsþjónustur á miðvikudögum föstunnar og á föstudaginn langa og enn er algengt að lítanían sé sungin á föstudaginn langa. Auk lítaníu séra Bjarna var á Akureyri flutt lítanía við lag Lúthers og endurskoðuð lítanía við sænskt lag en sá siður hefur nú lagst niður og lítanían hefur ekki verið sungin þar í nokkur ár. Lítanía séra Bjarna er erfið og gerir miklar kröfur til tónlistarfólks. Það er spurning hvort það væri ekki verðugt verkefni fyrir kirkjutónlistarmann að gefa út lítaníu séra Bjarna í nýrri útsetningu fyrir tvo kóra að hætti Lúthers!

Niðurhal

Útgefið

2015-01-15