Kristnivæðing Íslendinga á landnáms- og söguöld í ljósi niðurstaðna frá fornleifauppgrefti á Þórarinsstöðum í Seyðisfirði

Höfundar

  • Steinunn Kristjánsdóttir

Útdráttur

Kristnitaka Íslendinga hefur lengi verið fræðimönnum hugleikið rannsóknaefni, líkt og ferlið fyrir og eftir hana. Minna hefur verið rýnt í það hvernig kristið hugarfar og menning birtist og mótaðist í hversdegi almennings innan íslensks samfélags. Hér er þessi fram-vinda skilgreind sem kristnivæðing til aðgreiningar frá kristnitöku og kristnitökuferli. Hugtakið kristnivæðing vísar til þeirrar togstreitu sem sífellt myndast á milli gamalla og nýrra siða, rétt eins og þegar nútímavæðingin bar með sér nýja strauma sem blönduðust hinum eldri svo oft varð úr bræðingur gamalla og nýrra viðhorfa eða eitthvað nýtt. Þá er hér gengið út frá því að kristnivæðing Íslendinga á landnáms- og söguöld hafi almennt verið liður í kristnivæðingu Evrópubúa. Stuðst er við frásagnir úr rituðum heimildum til þess að greina ferli kristnivæðingarinnar á Íslandi á landnáms- og söguöld en einnig við fornleifauppgröft sem fram fór á Þórarinsstöðum í Seyðisfirði á árunum 1998–1999. Þar var grafin upp kirkja og kirkjugarður úr öndverðri kristni á Íslandi en minjarnar benda til sterks tengslanets kaþólskrar kirkju um alla Evrópu á þessum tíma. Niðurstöðurnar ýta jafnframt undir hugmyndir um að þekking á grunnhugmyndafræði kristinnar trúar hafi verið útbreidd meðal fólksins sem varð að Íslendingum við landnámið; þekking sem hefur án efa haft áhrif á þá opinberu stefnu sem tekin var af stjórnvöldum þessa tíma á Íslandi við kristnitökuna.

Niðurhal

Útgefið

2014-09-17