Grein þessi fjallar um Jústínus píslarvott og tengsl hans við heimspekiskóla samtímans, sér í lagi stóuspeki og platónisma. Tilvísanir Jústínusar til stóuspeki eru fyrst kannaðar og afstaða hans til þessarar heimspekistefnu metin út frá þeim. Ljóst er af þessum tilvísunum að enda þótt kirkjufaðirinn hafi vel kunnað að meta siðfræði stóumanna var hann afar gagnrýninn á nokkrar af meginkenningum þeirra í guð- og heimsfræðilegum efnum, þ.e.a.s. um (efnislegt) eðli Guðs, endalok heimsins og hlutverk örlaganna í heiminum. Bent er á að Jústínus hafi líklega orðið fyrir áhrifum platónista hvað þetta varðar, enda var Jústínus platónisti áður en hann snerist til kristinnar trúar, en platónistar og stóumenn voru harðir andstæðingar í guð- og heimsfræðilegu tilliti á þessum tíma. Tengsl Jústínusar við platónismann eru einnig könnuð, þar sem áhersla er lögð á það að Jústínus hafi í kenningarlegu tilliti að mörgu leyti haldið áfram að vera platónisti jafnvel eftir að hann varð kristinn. Að endingu er svo tilraun gerð til að svara þeirri áleitnu spurningu hvers vegna Jústínus sneri baki við platónismanum sem slíkum og gerðist kristinn. Á grundvelli lýsingar hans í innganginum að Samræðunni er dregin sú ályktun að hann hafi haft mjög „pragmatíska“ sýn á heimspeki og guðfræði sem hafi valdið því að hann tók að efast um tilteknar platónskar kenningar um samband mannssálarinnar við Guð. Að hans mati var þessu sambandi eingöngu gerð fullnægjandi skil í kristindómnum.