Kirkjuskipan fyrir 21. öld
Útdráttur
Í þessari grein og tveimur sem fylgja munu í kjölfarið verður fjallað um kirkjuskipan fyrir íslensku þjóðkirkjuna á 21. öld en með því er átt við heildstætt regluverk sem kveður á um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar. Í þessari fyrstu grein eru almennar forsendur slíkrar kirkjuskipanar ræddar. Annars vegar er fengist við hlutverk kirkjuskipanarinnar (að skapa festu í kirkjustarfinu og að mynda leikreglur um breytingar í því efni) og hverjar helstu víddir hennar eru, m.a. innri og ytri vídd. Hins vegar er fengist við sjálfstæði (autonomy) kirkna og trúfélaga en það er grundvallaratriði sem kirkjuskipan á 21. öld hlýtur að taka til.
Lögð er áhersla á að forsenda þess að innri kirkjuskipanin, reglur um stjórn og starfs-hætti kirkjunnar, geti mótast af þeirri grundvallarforsendu að kirkjunni beri samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins að vera evangelísk-lúthersk þjóðkirkja felist í að kirkjan búi að umtalsverðu frelsi til að ráða sjálf til lykta sem flestum málum sínum sem ekki lúta beinlínis að réttarstöðu hennar. Slíkt sjálfstæði er jafnframt talið mikilvægur þáttur í (corporativ) trúfrelsi sem tryggja verði kirkjum og trúfélögum í veraldlegum lýðræðis-samfélögum nútímans. Er litið svo á að lög um mannréttindasáttmála Evrópu (2. mgr. 9. gr.) kveði á málefnalegan hátt á um hvernig fullveldi ríkisvaldsins og sjálfstæði trúfélaga skuli samrýmd.