Brothættir menntunarmöguleikar nemenda af erlendum uppruna við lok grunnskóla
Málamiðlun framtíðarvona
##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/serritnetla.2024.5Lykilorð:
framtíðarvæntingar, menntun, erlendur uppruni, skóli fyrir allaÚtdráttur
Síðastliðna þrjá áratugi hefur einstaklingum af erlendum uppruna fjölgað hratt á Íslandi og hefur samfélagið þróast frá því að vera fremur einsleitt yfir í að vera fjölþjóðlegt. Slíkum breytingum fylgja áskoranir fyrir íslenskt skólakerfi sem þarf að mæta. Nemendum af erlendum uppruna hefur vegnað verr í skóla og brottfall úr framhaldsskóla er hlutfallslega meira meðal þeirra en nemenda af íslenskum uppruna. Vekur það spurningar um hversu opið íslenskt skólakerfi er í raun, það er hvort börn fái að blómstra í gegnum nám sitt, á eigin forsendum og óháð uppruna. Markmið þessarar rannsóknar er að skilja framtíðarvæntingar unglinga af erlendum uppruna til náms eftir grunnskóla. Tilgangur rannsóknarinnar er að bera kennsl á mögulegar hindranir nemenda með erlendan bakgrunn þegar marka á sér framtíðarstefnu og skilja hvar breytinga er þörf svo hægt sé að mæta þörfum þeirra og veita stuðning. Í þessari rannsókn er leitast við að svara tveimur rannsóknarspurningum: Hvernig birtast framtíðarvæntingar til náms hjá nemendum af erlendum uppruna í efstu bekkjum grunnskóla á Íslandi? Hvaða menntunarmöguleika telja þau sig eiga, að teknu tilliti til búsetu, upplifunar á gengi í íslensku í skóla, eigin tungumálakunnáttu og stöðu fjölskyldunnar í íslensku samfélagi? Rannsóknin er með blönduðu sniði og byggist annars vegar á spurningakönnun sem 860 nemendur með íslenskan og erlendan bakgrunn í 17 grunnskólum svöruðu, og hins vegar á viðtölum við 32 nemendur með erlendan bakgrunn. Niðurstöður sýna hvernig framtíðaráform nemenda af erlendum uppruna eru afurð málamiðlana, mótuð m.a. af hugmyndum þeirra um skort á eigin tungumálagetu, bæði í námi og almennt, og hvar á landinu þau búa. Rannsóknin varpar ljósi á hve brothætt framtíðaráform nemenda geta verið, þar sem nemendur meta tækifæri sín eftir því hvernig þau upplifa stöðu sína í íslensku samfélagi.
Niðurhal
Útgefið
Tölublað
Kafli
Leyfi
Copyright (c) 2024 Eva Dögg Sigurðardóttir
Greinar í tímaritinu eru gefnar út undir leyfinu (Creative Commons Attribution 4.0 International License).