Útvalin og úrvals

Stofnanaháttur elítuskóla og vegferð stúdentsefna í Reykjavík og Helsinki

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2024.1

Lykilorð:

háskólamenntun, val, Bourdieu, stétt, vegferð, menntatækifæri, elítumenntun, framhaldsskólamenntun

Útdráttur

Vegferð ungs fólks til fullorðinsára í gegnum framhalds- og háskólakerfið er ferli sem mótar sjálfsmynd þeirra, möguleika og stöðu meðal jafningja. Markmið rannsóknarinnar er að greina stofnanahátt aðgangsstífra bóknámsskóla á Íslandi og í Finnlandi út frá bakgrunni og reynslu nemenda og skoða vegferð þeirra milli framhalds- og háskólastigsins. Nemendurnir hafa verið valdir úr stórum hópi ungmenna til að verða „úrvals“ eða „framúrskarandi“ fólk. Fræðileg nálgun er byggð á hugtökum Bourdieu þar sem rýnt er í upplifun nemendanna af ferlinu við að velja og vera valin inn í skólann, hvernig þau hafa upplifað skólavistina og svo hvernig námsvalið, skólareynslan og val á háskólanámi markast af arfbundnu auðmagni og stofnanahætti skólans. Skoðuð var upplifun stúdentsefna úr fjórum framhaldsskólum við lok námstímans í gegnum hálfstöðluð einstaklingsviðtöl við 20 nemendur. Niðurstöðurnar benda til að stofnanaháttur skólanna sé keimlíkur en finnsku nemendurnir þurftu þó að laga sig meira að afar þröngum akademískum viðmiðum. Samræmt stúdentspróf og þröng inntökuskilyrði finnska háskólastigsins skapa þar mikið aðhald. Stofnanaháttur skólanna fól í sér aðgengi að auðmagni sem nemendur gátu notað til að skapa sér yfirburðastöðu í félagsheimi ungmenna og nauðsynlega yfirsýn og þekkingu á framtíðarmöguleikum um frekara nám og störf. Niðurstöður gefa vísbendingar um að stofnanaháttur framhaldsskólanna skapi, ásamt arfbundnu auðmagni, forsendur fyrir tilteknum smekk og aðgengi að háskólanámi og mærum sem styðji við félagslegt viðhald mismununar.

Um höfund (biographies)

Berglind Rós Magnúsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Berglind Rós Magnúsdóttir (brm@hi.is) er prófessor í uppeldis- og menntunarfræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í menntavísindum frá Cambridge-háskóla í Bretlandi árið 2014. Rannsóknir hennar hafa verið á sviði menntastefnufræða og félagsfræði menntunar.

Sonja Kosunen, Háskólinn í Austur-Finnlandi

Sonja Kosunen (sonja.kosunen@uef.fi) er prófessor í almennum menntavísindum við Háskólann í Austur-Finnlandi. Hennar rannsóknir snúa helst að félagsfræði, stjórnmálafræði menntunar og þéttbýlisfræðum. Hún leiðir rannsóknarhópinn SURE sem stendur fyrir félagsvísindalegum rannsóknum á menntun í þéttbýli.

Niðurhal

Útgefið

2024-05-14