Framhaldsskólanemar á tímum heimsfaraldurs

Námsupplifun ólíkra nemendahópa

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2023.22

Lykilorð:

framhaldsskólanemar, COVID-19, námslegar áskoranir, líðan, félagslegar áskoranir, félagslegur bakgrunnur

Útdráttur

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif COVID-19-faraldursins á íslenska framhaldsskólanemendur en miklar áhyggjur hafa verið af áhrifum faraldursins á nám og líðan ungs fólks. Vorið 2021 var spurningalisti lagður fyrir nemendur (N = 1.306) í fjórum framhaldsskólum. Leitast var eftir því að skoða hvaða hópar fyndu mest fyrir áhrifum faraldursins og hverjum fyndist erfitt að hefja aftur hefðbundið nám innan veggja skólans. Kannað var hvort munur væri á nemendum eftir kyni, móðurmáli og menntun foreldra og hvort þeir teldu sig kljást við þætti sem trufluðu þá í námi. Niðurstöðurnar sýna mismunandi áhrif faraldursins eftir hópum. Konur sögðu frekar en karlar að kvíði hefði aukist í fjarkennslu og nemendur sem áttu háskólamenntaða foreldra voru frekar á því að kvíðinn hefði aukist. Um helmingur var meira einmana í fjarkennslu, konur marktækt frekar en karlar, en nemendur með lesblindu og þeir sem áttu ekki íslensku að móðurmáli voru síður einmana en samnemendur. Ríflega helmingi fannst gott að mæta aftur í skólann og þá frekar þeim sem áttu íslensku að móðurmáli og þeim sem áttu foreldra með háskólamenntun. Nemendur sem upplifðu truflun á námi vegna kvíða, félagsfælni, þunglyndi eða lesblindu voru síður á því að gott væri að mæta aftur í skólann. Niðurstöðurnar benda til þess að ákveðinn hópur finni sig best í hefðbundnu staðnámi, það er nemendur sem eiga háskólamenntaða foreldra, eiga íslensku að móðurmáli og kljást ekki við félagsfælni, þunglyndi, kvíða eða lesblindu sem hefur truflandi áhrif á nám þeirra. Þetta vekur upp áleitnar spurningar um stöðu þeirra sem ekki virðast finna sig í hefðbundnu framhaldsskólanámi. Brýnt er að hlúa sérstaklega að þessum nemendahópi nú þegar skólastarf er að færast í fyrra horf.

Um höfund (biographies)

Amalía Björnsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Amalía Björnsdóttir (amaliabj@hi.is) er prófessor við Deild kennslu- og menntunarfræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1991, M.Sc.-prófi frá Háskólanum í Oklahoma 1994 og doktorsprófi frá sama skóla 1996. Hún hefur lagt stund á rannsóknir á skólastjórnun og áhrifum félagslegra þátta á skólastarf. Á síðustu misserum hefur hún rannsakað áhrif COVID-19-faraldursins í framhalds- og háskólum.

Guðlaug M. Pálsdóttir

Guðlaug M. Pálsdóttir (gudlaug.palsdottir@fss.is) er aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hún er líffræðingur og framhaldsskólakennari að mennt og hefur nýlega lokið M.Ed.-prófi í stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands. Guðlaug hefur starfað sem stjórnandi frá árinu 2006, bæði sem áfangastjóri og aðstoðarskólameistari og auk þess einn vetur sem skólameistari.

Guðrún Ragnarsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Guðrún Ragnarsdóttir (gudrunr@hi.is) er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún er lífeindafræðingur og kennari að mennt. Að auki er hún með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu, MPH-gráðu í lýðheilsufræðum og doktorsgráðu í menntavísindum frá Háskóla Íslands. Guðrún hefur starfað sem millistjórnandi og grunn- og framhaldsskólakennari. Einnig hefur hún tekið að sér fjölbreytt verkefni á sviði menntunar fyrir Evrópuráðið. Rannsóknasvið hennar er kennslufræði, skólaþróun, starfsþróun og stjórnun skóla.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)

1 2 > >>