Menntun eða úrræði?

Stefnumótun íslenska ríkisins um fullorðinsfræðslu

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2023.20

Lykilorð:

menntun fullorðinna, fullorðinsfræðsla, framhaldsfræðsla, ævimenntun, menntastefna, tæknihyggja, skólahyggja, nám fyrir atvinnulífið, umbreytandi menntun

Útdráttur

Þessi grein sprettur upp úr heildarendurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu hér á Íslandi sem hófst í janúar 2023. Skoðað er hvernig stjórnvöld á Íslandi hafa skilgreint markmið fullorðinsfræðslu í frumvörpum sínum og lögum allt frá 1974. Í framhaldi af því er rýnt í framtíðarsýn UNESCO, OECD og íslenskra stjórnvalda varðandi menntun fullorðinna og að lokum velt upp hvernig má nýta þessar greiningar og stefnuskjöl til markvissrar endurskoðunar á gildandi lögum um framhaldsfræðslu (nr. 27/2010) sem unnið er að um þessar mundir.

Greining frumvarpanna leiðir í ljós að hugmyndafræði almennrar menntunar með víða skírskotun til fjölbreyttrar menntunar fyrir alla hefur æ meir vikið fyrir aukinni tæknihyggju og skólahyggju sem beinist fyrst og fremst að þröngum hópi fullorðinna einstaklinga með stutta skólagöngu að baki. Einnig kemur fram að núverandi lög um framhaldsfræðslu ná ekki að takast á við þær áskoranir og þrástef sem koma fram í fjölþjóðlegum framtíðarstefnuskjölum OECD og UNESCO.

Greinin endar á því að leggja fram tillögur um inntak markmiðsgreinar þar sem gætt er að jafnvægi milli ólíkra þátta og að þróa markmið sem eiga rætur sínar í almennri menntun, skólahyggju og tæknihyggju og efla fólk til samfélagslegrar, borgaralegrar og atvinnutengdrar þátttöku. Auk þess er lögð áhersla á að tekið verði tillit til framtíðaráskorana sem eru þrástef í fjölþjóðlegum stefnuskjölum og fundið aukið jafnvægi milli áherslunnar á opinbert líf og einkalíf í inntaki námsins.

Um höfund (biographies)

Berglind Rós Magnúsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Berglind Rós Magnúsdóttir (brm@hi.is) er prófessor í uppeldis- og menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún er deildarforseti í deild menntunar og margbreytileika sem hefur m.a. á sinni könnu kjörsviðið Fræðslustarf og mannauðsþróun innan námsbrautar í uppeldis- og menntunarfræði. Hún er nú formaður starfshóps á vegum félags- og vinnumarkaðsráðherra sem vinnur að mótun stefnu um framhaldsfræðslu en árið 2009-2012 starfaði hún jafnframt sem faglegur ráðgjafi menntamálaráðherra. Rannsóknir hennar eru aðallega á sviðum félagsfræði menntunar og menntastefnufræða og hafa beinst að félagslegu réttlæti í menntun.

Helgi Þ. Svavarsson, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Helgi Þ. Svavarsson (hths11@hi.is) er doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, verkefnastjóri hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og formaður Leiknar, samtaka aðila í fullorðinsfræðslu á Íslandi. Helgi lauk blásarakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1996. Árið 2013 lauk hann M.Ed.-prófi í stjórnunarfræði menntastofnana. Frá haustinu 2013 hefur Helgi lagt stund á doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hans hafa beinst að stjórnun og forystu skóla í samfélögum með mikinn menningarlegan fjölbreytileika.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar