Samstarf um nám barna og þekkingarsköpun

áherslur í tengslum leikskóla og grunnskóla í menntastefnum fjögurra sveitarfélaga

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2023.13

Lykilorð:

samstarf leikskóla og grunnskóla, samfella í námi, menntastefnur, félagsleg sjálfbærni, réttlæti

Útdráttur

Markmið rannsóknarinnar sem hér er fjallað um er að greina þær áherslur sem eru í samstarfi leikskóla og grunnskóla í fjórum sveitarfélögum á Íslandi og á hverju þær byggja. Samfella í námi barna og ungmenna er undirstrikuð í alþjóðlegri stefnumótun um skólamál. Lögð er áhersla á að nám barna og ungmenna eigi að vera samfellt frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla, þar sem skólastigið sem tekur við byggir á þeirri reynslu og námi sem barnið hefur öðlast á fyrri stigum, fremur en að markviss undirbúningur fari fram fyrir næsta skólastig. Í þessari grein eru menntastefnur fjögurra sveitarfélaga og samstarfsáætlanir leikskóla og grunnskóla innan hverfa skoðaðar, í ljósi greiningar Moss (2013) á þremur tegundum samstarfs leikskóla og grunnskóla, og hvernig best sé að tryggja samfellu í námi barna og koma í veg fyrir rof. Notuð er skjalagreining til þess að skoða og túlka þá stefnumótun sem fram kemur um samstarf leikskóla og grunnskóla í menntastefnunum og starfsáætlununum þar sem gagnvirkt samstarf leikskóla og grunnskóla er á ábyrgð sveitarstjórna. Skólanámskrá leikskóla á að gera grein fyrir samstarfinu og hvernig staðið er að þessum þáttaskilum. Lögð er áhersla á sveigjanleika og samfellu í skólakerfinu, bæði í inntaki og starfsháttum. Andstæð sjónarmið beinast að mikilvægi leikskólans sem skólastigs með áherslu á leik sem meginnámsleið eða tímabils þar sem undirbúa eigi börn fyrir grunnskólastigið. Niðurstöður skjalagreiningarinnar sýndu aukna áherslu á fjölbreytt og þverfaglegt samstarf í núgildandi menntastefnum sveitarfélaganna. Allar byggja stefnurnar meðal annars á stefnu stjórnvalda um Menntun fyrir alla, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun, e.d. ; Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2022; Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, 1992). Þátttaka foreldra, kennara og barna í skólastarfi og áhrif þeirra eru undirstrikuð og forsendur gefnar fyrir að félagsleg sjálfbærni, réttlæti og fullgildi skapist í skólastarfi innan hverfa. Lærdómur og skilaboð rannsóknarinnar eru að til þess að styðja við þátttöku helstu hagsmunaaðila skólastarfs þarf að skapa vettvang til samræðu sem móta má til dæmis í sveitarfélögum og innan hverfa. Þar þarf samtal að fara fram um gæði skólastarfs í anda lýðræðis, félagslegs réttlætis og sjálfbærni.

Um höfund (biography)

Anna Magnea Hreinsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Anna Magnea Hreinsdóttir Ph.D. (amh@hi.is) lauk námi í tómstundafræðum frá Göteborgs folkhögskola í Svíþjóð árið 1980, B.Ed.-gráðu í leikskólafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999 og meistaraprófi frá sama skóla árið 2003. Árið 2009 lauk hún doktorsprófi í menntunarfræðum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands með áherslu á lýðræðislegt umræðumat á skólastarfi. Hún vann sem leikskólastjóri og leikskólafulltrúi á árunum 1991–2015 og var sviðsstjóri fjölskyldusviðs Borgarbyggðar á árunum 2015–2020. Nú starfar hún við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar