Traust og samvinna um skapandi skólastarf í opnu og sveigjanlegu námsumhverfi

Margrét Einarsdóttir grunnskólakennari

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2023.9

Lykilorð:

skólabyggingar, opinn skóli, teymiskennsla, skólastjórn, söguaðferð, sköpunarsmiðjur, þróunarverkefni

Útdráttur

Greinin sem hér fer á eftir og rannsóknin sem þar er lýst beinast að viðburðaríkum starfsferli og um margt einstæðri reynslu Margrétar Einarsdóttur grunnskólakennara og skólastjóra. Til grundvallar liggja rannsóknarviðtöl við Margréti ásamt fyrri athugunum höfundar á húsakynnum skóla og innleiðingu nýrra kennsluhátta tengdum nýsköpun og tækni í samvinnu við aðra rannsakendur. Rannsóknin varpar ljósi á samspil stjórnunar, kennslu og húsakynna eða annars námsumhverfis á löngum starfsferli við nokkra íslenska grunnskóla. Athygli er beint að því hvernig nýstárleg og opin húsakynni og stundum tækni studdu við eða ýttu undir samstarf kennara, teymiskennslu, samvinnu nemenda og verkefnamiðað nám. Greint er frá lærdómsríkri samvinnu á Dalvík, námsdvöl í Skotlandi og nánum kynnum af söguaðferð, samstarfi kennara í ævintýralegu kennsluumhverfi Korpúlfsstaða og hugmyndavinnu um nýjar skólabyggingar í Reykjavík austanverðri; Ingunnarskóla og Korpuskóla. Lýst er opnum svæðum og framsæknu starfi í Korpuskóla eftir að hann var risinn og greint frá viðbyggingu Vesturbæjarskóla og þróunarstarfi þar um teymisvinnu og innleiðingu á nýsköpun og stafrænni tækni. Leitast er við að draga fram gildi opinna og sveigjanlegra húsakynna þegar efla á samvinnu um nám og kennslu og ýta undir atbeina nemenda í eigin námi. Niðurstöður benda til að opin og nýstárleg húsakynni, ásamt hugmyndum um nám og kennslu sem þar liggja til grundvallar, geti orðið vettvangur fyrir skapandi skólastarf þar sem áhugi og samvinna kennara, ásamt traustri leiðsögn og hæfilegum stuðningi stjórnenda, leiða til fjölbreyttra kennsluhátta og sveigjanlegs náms. Rannsóknarniðurstöður endurspegla þá kennisetningu að til þess að opin og nýstárleg húsakynni kalli fram samráð og teymiskennslu, samvinnu og verkefnamiðað nám lagað að áhuga og þörfum nemenda, þurfi menning og skipulag skóla að haldast í hendur við hönnun bygginga og mótun námsumhverfis.

Um höfund (biography)

Torfi Hjartarson, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Torfi Hjartarson (torfi@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hans beinast að skapandi vinnu með stafræna tækni í sveigjanlegu skólastarfi og hönnun bæði námsgagna og bygginga fyrir verkefnamiðað nám. Hann hóf sinn feril sem námsefnishöfundur, lauk meistaranámi frá University of Oregon 1991, stýrði Gagnasmiðju Kennaraháskóla Íslands, veitti Kennarafélagi Kennaraháskóla Íslands forystu og var í hópi ritstjóra sem stóð að stofnun Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun.

Niðurhal

Útgefið

2023-12-31

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)