Undir berum himni. Ígrundun og áskoranir háskólanema

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2022/20

Lykilorð:

hæglæti, ígrundun, náttúra, óvissa, útimenntun, útilíf, útivist

Útdráttur

Innan menntakerfa hefur sjónum verið beint að mikilvægi þess að skapa umhverfi og aðstæður til að auka hæfni nemenda til að takast á við óvissu og krefjandi áskoranir samtímans – hvort sem það er á sviði umhverfismála, heimsfaraldurs eða annarra þátta.

Alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að útilíf og útimenntun undir leiðsögn geti verið gagnleg og öflug leið til að vinna með slíka hæfni. Reynslu sem verður til við að færa nám út í náttúruna, má rekja til krefjandi samskipta nemenda þegar tekist er á við óöruggt umhverfi og veðurfar. Til þess að reynslan verði að lærdómi og geti stuðlað að aukinni hæfni nemenda er nauðsynlegt að hún sé ígrunduð með skipulögðum hætti.

Tilgangur þessarar greinar er að benda á mikilvægi námsumhverfis og skapandi leiða til þess að mæta samtímakröfum við menntun háskólanemenda. Markmiðið er að varpa ljósi á hlutverk ígrundunar við að draga fram möguleika til náms og þroska sem felast í að dvelja úti í náttúrunni. Skoðaðar eru ígrundanir nemenda fyrir, í og eftir fjögurra daga námsferð um óbyggðir Íslands. Greinin byggir á gögnum frá 58 nemendum sem tóku þátt í námskeiðinu Ferðalög og útilíf við Háskóla Íslands. Gögnin voru þemagreind og sameiginleg þemu dregin fram. Niðurstöður benda til að náttúran sé sterkur meðleiðbeinandi þegar unnið er með nemendum við að styrkja persónulegan og faglegan vöxt. Nemendur lýsa upplifun af líkamlegum áskorunum sem tengdust því að ganga í ósnortnu landslagi sem og áskorunum þar sem þau tókust á við hugsanir og tilfinningar. Vísbendingar er að finna í skrifunum um að ferðalagið hafi fært nemendum tækifæri til merkingarbærs náms sem gæti haft áhrif á þau persónulega og faglega. Skipulögð ígrundandi iðja var mikilvægur þáttur í ferlinu, sem þau fengu tækifæri til að þjálfa með því að staldra við, taka eftir og að glíma við óvissu og náttúrulegar áskoranir.

Um höfund (biographies)

Jakob Frímann Þorsteinsson, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Jakob Frímann Þorsteinsson (jakobf@hi.is) er aðjúnkt og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk B.Ed.-gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 1993 og MA-prófi í náms- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands árið 2011. Hann hefur unnið lengi við tómstunda- og skólastarf, m.a. í félagsmiðstöðvum, við faglega stjórnun, í grunnskóla og verið virkur í ýmsum félagasamtökum. Helstu rannsóknarviðfangsefni hans eru á sviði útimenntunar, tómstunda- og menntunarfræða, þróunar kennsluhátta í háskóla og formgerða náms. ORCID ID: https://orcid.org/0000-0002-0172-0881

Hervör Alma Árnadóttir, Háskóli Íslands - Félagsráðgjafadeild

Hervör Alma Árnadóttir (hervora@hi.is) er dósent við Félagsráðgjafardeild HÍ og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún starfaði um árabil sem félagsráðgjafi með unglingum og var m.a. leiðbeinandi í félagslegu úrræði fyrir unglinga þar sem aðferðum náttúrumeðferðar var beitt. Helstu rannsóknarviðfangsefni hennar eru á sviði bernskufræða, þátttöku og réttinda barna og náttúrunálgana í vinnu með hópum

Karen Rut Gísladóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Karen Rut Gísladóttir (karenrut@hi.is) er prófessor í kennslufræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í íslensku með táknmál sem aukagrein árið 1998, prófi í uppeldis- og kennslufræðum árið 2000, M.Paed. í íslensku og kennslufræði árið 2001, meistaraprófi í læsisfræðum frá Wisconsin-háskóla í Bandaríkjunum 2005 og doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2011. Rannsóknir hennar beinast að félagsmenningarlegum skilningi á tungumáli og læsi, fjölmenningu og þróun kennara í starfi. Rannsóknaraðferðir eru starfendarannsóknir, starfstengd sjálfsrýni og eigindlegar aðferðir.

Ólafur Páll Jónsson, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Ólafur Páll Jónsson (opj@hi.is) er prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Auk greina um heimspeki menntunar, stjórnmálaheimspeki, náttúruheimspeki, réttarheimspeki, fornaldarheimspeki og gagnrýna hugsun hefur hann gefið út nokkrar bækur, m.a. Lýðræði, réttlæti og menntun (2011), barnabókina Fjársjóðsleit í Granada (2014) og bókina Annáll um líf í annasömum heimi (2020). ORCID ID: https://orcid.org/0000-0002-2782-1306

Niðurhal

Útgefið

2022-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)

1 2 > >>