Sköpunarsmiðjur í þremur grunnskólum: Þróunarverkefni á góðri siglingu

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2022.16

Lykilorð:

grunnskóli, þróunarstarf, sköpunarsmiðjur, teymisvinna, upplýsingatækni, sóttvarnir

Útdráttur

Þrír grunnskólar austast og vestast í Reykjavík; Ingunnarskóli, Selásskóli og Vesturbæjarskóli, standa að þróunarstarfi um innleiðingu á sköpunarsmiðjum (e. makerspaces). Þar er kallað eftir atbeina nemenda og lögð áhersla á sköpun. Stefnt er að bættu námsumhverfi, aukinni samvinnu, sjálfstæði nemenda, skapandi efnistökum við lausn verkefna, tækninotkun og samþættingu námsgreina. Kennarar hafa komið saman í menntabúðum til að kynna sér efnivið, tæki, hugbúnað og kennsluhugmyndir og gert ýmsar tilraunir tengdar smiðjustarfi í sinni kennslu. Reykjavíkurborg hefur stutt verkefnið og við rannsakendur við Háskóla Íslands lagt verkefninu lið. Nýleg rannsóknargrein (Svanborg R. Jónsdóttir o.fl., 2021) endurspeglar upphafið, byggt á viðtölum við stjórnendur og rýnihópa kennara en hér segir frá könnun á viðhorfi kennara til verkefnisins á miðri leið. Alls 22 spurningar voru í febrúar 2021 settar upp á vef og 75 af 80 kennurum skólanna þriggja brugðust við þeim. Flestir sögðust hafa góðan skilning á verkefninu, sáu í því tækifæri og töldu það mikilvægt fyrir nám og hæfni nemenda. Fjórir af hverjum fimm sögðust hafa prófað sumt sem kynnt hafði verið í menntabúðum og margir höfðu aukið áherslu á sköpun og tækni í sinni kennslu. Þá þótti verkefninu vel stýrt. Ekki voru allir jafn áhugasamir og sumir kennaranna töldu sig þurfa aukinn tíma eða ráðgjöf. Nokkur munur var á viðhorfum eftir skólum og gæti hann ráðist af skapandi starfi sem fyrir var, stöðu tæknivæðingar, aldursspönn og sóttvörnum við einstaka skóla. Hér verður í inngangsköflum gerð grein fyrir félagslegri vistfræðisýn á kennsluhætti og í ályktunum um niðurstöður stuðst við hana. Dregið er fram hvernig þættir í nærkerfi, grenndarkerfi, ytra kerfi og lýðkerfi skólanna þriggja gætu haft áhrif á þróunarstarfið. Um frekari athuganir okkar á síðari stigum verður fjallað síðar enda viljum við greina sem best hvernig finna megi sköpunarsmiðjum farveg í starfi íslenskra grunnskóla.

Um höfund (biographies)

Svava Pétursdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Svava Pétursdóttir (svavap@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1989 og doktorsnámi frá University of Leeds 2012. Doktorsritgerð hennar bar titilinn Using information and communication technology in lower secondary science teaching in Iceland. Hún kenndi í 15 ár yngri bekkjum auk náttúrufræði og stærðfræði á unglingastigi. Rannsóknir hennar eru á sviði upplýsingatækni í skólastarfi, starfssamfélaga kennara og náttúrufræðimenntunar. ORCID ID: https://orcid.org/0000-0002-1206-8745

Svala Jónsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Svala Jónsdóttir (svalaj@hi.is) er aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún er með próf í grafík og auglýsingateiknun frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og meistaragráðu í kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands. Hún hefur aðallega kennt verðandi leikskólakennurum, fyrst við Fósturskóla Íslands, en nú við Menntavísindasvið HÍ. Rannsóknir hennar hafa aðallega snúist um náttúrufræði og upplýsingatækni í leikskólum ásamt sköpun í skólastarfi.

Torfi Hjartarson, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Torfi Hjartarson (torfi@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hans beinast að skapandi vinnu með stafræna tækni í sveigjanlegu skólastarfi og hönnun bæði námsgagna og bygginga fyrir verkefnamiðað nám. Hann hóf sinn feril sem námsefnishöfundur, lauk meistaranámi frá University of Oregon 1991, stýrði Gagnasmiðju Kennaraháskóla Íslands, veitti Kennarafélagi Kennaraháskóla Íslands forystu og var í hópi ritstjóra sem stóð að stofnun Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun. ORCID ID: https://orcid.org/0000-0003-4382-6331

Svanborg Rannveig Jónsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Svanborg Rannveig Jónsdóttir (svanjons@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1978 með íslensku og dönsku sem aðalgreinar. Hún lauk M.A.-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands 2005 með áherslu á nýsköpunarmennt. Árið 2011 lauk hún doktorsnámi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og er titill doktorsritgerðar hennar The location of innovation education in Icelandic compulsory schools. Rannsóknir hennar snúast um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt, námskrárfræði, skapandi skólastarf, breytingastarf og starfstengda sjálfsrýni í kennaramenntun. ORCID ID: https://orcid.org/0000-0002- 8194-0939

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir (shk@hi.is) er aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1982 og eins árs diplómanámi í handlistum frá sama skóla 1983. Hún lauk B.A.-prófi í þrívíddarhönnun frá Camberwell College of Art 1989 og M.A.-prófi í myndlist/skúlptúr frá Wimbledon College of Art / Kingston University. Skúlína hefur starfað sem kennari og skólastjórnandi á grunnskólaog framhaldsskólastigi. Hún leggur stund á doktorsnám við Háskóla Íslands. Kennsla hennar og rannsóknir eru á sviði list- og verkmenntunar, tæknimenntar, upplýsingatækni í menntun, fjölháttalæsi, stefnumótunar og skólaþróunar. ORCID ID: https://orcid. org/0000-0001-6817-5462

Niðurhal

Útgefið

2022-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar