Þættir sem hafa áhrif á möguleika grunnskólakennara til að styðja við börn með námserfiðleika og fjölþættan vanda

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2022.86

Lykilorð:

grunnskóli, skóli án aðgreiningar, námserfiðleikar, kennarar, stuðningur, úrræði

Útdráttur

Kennarar þurfa að hafa velferð og menntun nemenda að leiðarljósi og koma fram við þá af virðingu og fagmennsku. Því er það hverju samfélagi mikilvægt að kennurum sé gert kleift að laga kennslu að fjölbreytilegum þörfum nemenda. Í þessari grein er sagt frá niðurstöðum spurningalistakönnunar sem send var kennurum á grunnskólastigi (N=478) námsveturinn 2018–2019 með það að markmiði að kanna viðhorf þeirra og reynslu af stuðningi við börn með námserfiðleika og fjölþættan vanda í grunnskólum. Þá er átt við börn sem hafa verið greind með ADHD, einhverfu, almenna og sértæka námserfiðleika, tilfinningalega og félagslega erfiðleika og Tourettesheilkenni. Leitað var svara við rannsóknarspurningunni „Hver eru viðhorf og reynsla kennara af stuðningi við börn með námserfiðleika og fjölþættan vanda í grunnskólum?“ Niðurstöður sýna að um helmingur kennara taldi að sér gengi vel að laga námið að þörfum nemenda. Helstu ástæður voru mikil starfsreynsla, góður stuðningur frá samstarfsfólki og hæfilegur fjöldi nemenda í bekk. Þeir kennarar sem töldu að sér gengi illa að aðlaga námið sögðu að helstu ástæðurnar væru of lítill tími til undirbúnings, of margir nemendur með hegðunar- og námserfiðleika í bekkjum og of lítið framboð af aðlöguðu námsefni þar sem tekið væri mið af fjölbreytilegum þörfum nemenda. Einnig kom fram að um sjö af hverjum tíu kennurum töldu sig ekki hafa fengið næga þjálfun í kennaranáminu til að takast á við fjölbreytilegar þarfir nemenda. Niðurstöður gefa til kynna að breytinga sé þörf í starfsumhverfi kennara til að þeir geti sinnt fjölbreyttum hópi nemenda í samræmi við stefnu um skóla án aðgreiningar.

Um höfund (biographies)

Sigrún Harðardóttir, Háskóli Íslands - Félagsvísindasvið

Sigrún Harðardóttir (sighar@hi.is) er dósent við félagsráðgjafardeild Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í uppeldisfræði og félagsráðgjöf árið 1988, starfsréttindanámi í félagsráðgjöf árið 1989, námi í náms- og starfsráðgjöf árið 1993, uppeldis- og kennslufræði árið 1994, meistaraprófi í félagsráðgjöf (MSW) árið 2005, doktorsprófi í félagsráðgjöf árið 2014 og diplómanámi í kennslufræði háskóla árið 2017, öllu frá Háskóla Íslands. Auk þess lauk hún diplómanámi í faghandleiðslu frá University of Derby árið 2021. Rannsóknarsvið höfundar snúa að skólafélagsráðgjöf, sálfélagslegri líðan nemenda og úrræðum innan skóla.

Ingibjörg Karlsdóttir

Ingibjörg Karlsdóttir (ingibjka@landspitali.is) er félagsráðgjafi MPH á Barna- og unglingageðdeild Landspítala. Hún lauk BA-prófi í uppeldisfræði og starfsréttindanámi í félagsráðgjöf árið 1989 frá Háskóla Íslands og meistaraprófi í lýðheilsufræði frá Háskólanum í Reykjavík 2012. Hún fékk sérfræðiréttindi í félagsráðgjöf á heilbrigðissviði 2014. Hún er höfundur bókarinnar ADHD og farsæl skólaganga ásamt meðhöfundi sem gefin var út af Námsgagnastofnun 2013. Rannsóknarsvið höfundar snúa að skólafélagsráðgjöf, börnum með námslegar og félagslegar áskoranir og áhrifum mataræðis og þarmaflóru á geðheilsu.

Alex Björn Stefánsson

Alex Björn Stefánsson (abb36@hi.is) lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2020. Hann hefur starfað sem aðstoðarmaður við félagsráðgjafardeild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands frá árinu 2020. Hann starfar sem verkefnastjóri rannsóknar á áhrifum faghandleiðslu fyrir starfsfólk í velferðarþjónustu á Íslandi og stundar meistaranám (M.Ed.) í menntunarfræðum við Háskólann á Akureyri.

Niðurhal

Útgefið

2022-12-13

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar