Responding to obstacles to educational change: Can online professional learning communities of educators help alleviate inertia?

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2022.85

Lykilorð:

fagleg sjálfsmynd kennara, fagmennska kennara, kennaramenntun, samræðu nám, lærdómssamfélag, vistfræði náms, fagþróun kennara, umbreyting í skólastarfi

Útdráttur

Samfélagið stendur frammi fyrir margvíslegri flækju og óvissu sem hvetur okkur til að endurskoða hugmyndir um nám, skólagöngu og tilgang menntunar. Í greininni er fjallað um skrif Jóns Torfa Jónassonar (2016) um menntabreytingar, tregðu til breytinga og hugsanlega framtíð. Hann heldur því fram að breyta þurfi markmiðum menntunar og inntaki náms. Þess vegna leitar hann svara við því hvers vegna erfitt sé að breyta inntaki náms. Þetta sé mikilvægt að skilja vegna þess að það kunni að vera skynsamlegt að innleiða „nýja þekkingu“ sem gæti átt heima utan hinna hefðbundnu námsgreina. Hann bendir á að kennarar verði að vera með í breytingaferlinu því þeir eru fagfólkið sem sér um útfærsluna á vettvangi (2016, bls. 1). Markmiðið með greininni er að skapa umræðu um tvo af níu flokkum Jóns Torfa um tregðu til breytinga. Þeir eru annars vegar kennaramenntun og hins vegar skortur á rými og hvata til frumkvæðis. Hér er rökstutt að skapa megi sérstakar aðstæður kennaramenntunar með því að móta vettvang til að takast á við umræddar hindranir og ýta undir breytingar. Þetta er mikilvægt þar sem kröfur um fjölþætta hæfni kennara aukast hratt (Jón Torfi Jónasson, 2013). Greinin fjallar um faglegt lærdómssamfélag á netinu (OPLC – online professional learning community) á vegum Evrópuráðsins. Þar koma saman kennarar frá ólíkum löndum og mismunandi skólastigum sem virka sem sjálfstæðir fagmenn, eftir því sem kostur er, og takast á við fyrrgreindar áskoranir. Umræðan hér byggist á rannsóknargögnum úr samtalsþráðum innan netsamfélagsins sem greindu mynstur í samræðum kennara. Fyrst með því að telja ákveðin einkenni samtalsins og síðan með því að þemagreina inntakið. Skoðuð viðhorf þátttakenda um framtíðina og umræður þeirra um kjöraðstæður sem þeir töldu styðja æskilega þróun. Netsamfélög eins og þessi geta verið mikilvægur hluti af faglegu námi kennara og starfsþróun þeirra og líta má á sem vistfræðilegt námsumhverfi vegna þeirra fjölmörgu ólíku þátta sem fléttast inn í þetta umhverfi og skipta máli. Innan slíkra samfélaga á sér stað þekkingarsköpun og fagmenntun kennara mótast á löngum tíma. Samfélagið styrkir gildi og viðhorf kennara sem rista oft djúpt og styðja við lýðræðislega menningu í skólastarfi en einnig ánægju og skuldbindingu kennara sem smám saman styrkir svo sjálfsmynd þeirra sem fagfólks. Niðurstöðurnar sýna hvernig netsamfélagið opnar rými fyrir kennara til að ígrunda starf sitt á gagnrýninn hátt með jafningjum og leiðbeinendum. Þannig samfélag getur orðið fyrirmynd sem tekur mið af ofangreindum tveimur af níu atriðum sem Jón Torfi nefnir um tregðu til breytinga. Þetta krefst ákveðinnar stefnubreytingar í starfsaðstæðum kennara sem felst í að gefa þeim tíma til að ígrunda starf sitt í samfélagi starfssystkina. Netsamfélagið gerir ráð fyrir samskiptum sem teygja sig yfir langan tíma, í anda starfsþróunar tengda starfi. Þátttakendur þessa netsamfélags byggðu upp þrautseigju með stuðningi jafningja og í öruggu rými. Þeir gátu talað opinskátt og tókst að halda við eigin seiglu, sem reynist gagnleg til að takast á við þá tregðu til breytinga, sem iðulega finnst. Kennarar hafa meiri áhrif í slíku samtali ef spurningar þeirra eru sýnilegar, þar á meðal þær sem lúta að gildum þeirra og tilfinningum. Jafnframt eiga kennarar í ólíkum námsgreinum samstarf í netsamfélaginu um þverfagleg málefni og byggja með þeim hætti brýr á milli faggreina og skólastiga. Þar er rætt efni sem birtist í stefnum, rannsóknum og af vettvangi. Þátttakendur í samfélaginu kynnast hugmyndum um ný verkefni í skólastarfi og því sem vitað er um breytingastarf sem aftur fléttast saman við þeirra eigið þróunarstarf. Breyting á verkefnum og þekkingu á breytingaferli er þannig miðlað á milli þátttakenda og er samtímis í stöðugri mótun og gefur fyrir bragðið betri og dýpri umfjöllun og yfirsýn á flókin málefni. Kennarar úr ólíkum áttum öðlast trú á sameiginlegt umboð sitt til að koma á félagslegum umbreytingum. Þannig styrkja lærdómssamfélög á netinu þrautseigju kennara og gera þá að frumkvöðlum breytinga með því að ræða um störf sín og komast að sameiginlegri niðurstöðu þvert á ríkjandi hefðir og kerfislegar mótsagnir. Þeir fá stuðning og hugmyndir til að skapa sitt eigið rými og stilla saman starfshætti sína og gildi. Frá sjónarhóli stefnumótunaraðila veita fagleg netsamfélög eins og þessi aðgang að mikilvægum „lifandi“ gögnum sem gefa dýrmæta innsýn í það sem er að gerast í kennslustofunni, í hugum kennara og hjá nemendum. Þetta getur verið góður efniviður fyrir rannsóknir og til stefnumótunar því þarna eru raddir fagfólksins á vettvangi. Efniviður sem speglar því mikilvægan raunveruleika, m.a. fyrir stefnumótun. Þannig rökstyður höfundur að hægt sé að koma til móts við áhyggjur Jóns Torfa af tregðu til breytinga. Lærdómssamfélög á netinu verða sífellt algengari og hluti af rannsóknarflórunni, stefnumótun og starfi vettvangs. Netsamfélög leysa ekki allan vanda en eru þess virði að rækta. Hér er a.m.k. eitt svar við spurningunni um hvernig virk þátttaka í lærdómssamfélögum á netinu getur unnið gegn hindrunum og veitt kennurum þá hvatningu sem þeir þurfa til að takast á við flókin vandamál og vinna gegn tregðu til breytinga.

Um höfund (biography)

Pascale Mompoint-Gaillard

Pascale Mompoint-Gaillard, PhD, er félagssálfræðingur og stundar rannsóknir á sviði menntunar, kennslufræði og starfsþróunar. Undanfarin 30 ár hefur hún sinnt fullorðinsfræðslu og síðastliðin 15 ár hefur hún mest fengist við kennaramenntun. Doktorsrannsókn hennar, sem hún lauk 2021, beindist að samtali þátttakenda í faglegu lærdómssamfélagi í ljósi vistfræði náms, sem undirstrikar hve margir ólíkir þættir skipta máli. Hún er meðhöfundur nokkurra handbóka, þar á meðal European Reference Framework of Competences for a Democratic Culture (RFCDC) og TASKs for Democracy handbook sem Evrópuráðið gaf út 2018. Þessar bækur snúast um hæfni nemenda og kennara. Auk þess að flytja fræðsluerindi á fjölbreyttum vettvangi leiðir hún nokkra samstarfshópa sem hverfast um nám á netinu, félagslegt réttlæti og nám sem byggist á reynslu og leiðir til þróunar. Hún leiðir frjáls félagasamtök á sviði menntunar: Learn to Change, Change to Learn.

Niðurhal

Útgefið

2022-12-13

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar