Stafræn hæfni: Gagnsemi sjálfsmatsverkfæra og leiðarlykla í skólaþróun

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2022.74

Lykilorð:

starfæn hæfni, sjálfsmatsverkfæri, DigCompEdu, SELFIE, starfsþróun, skólaþróun

Útdráttur

Til að bregðast við breytingum sem fylgja stafrænni tækni og nýtingu hennar við nám og kennslu er í ýmsum stefnuskjölum lögð áhersla á hæfni kennara, starfsþróun og kennaramenntun. Evrópuráðið hefur sett fram ramma um stafræna hæfni í menntun (DigCompEdu – Digital Competence of Educators) þar sem faglegir og kennslufræðilegir hæfniþættir kennara til að efla stafræna hæfni nemenda sinna eru skilgreindir.

Sjálfsmatsverkfærið SELFIE (Self-reflection on Effective Learning by Fostering the use of Innovative Educational Technologies) er byggt á ramma DigCompEdu og er ætlað að leggja mat á stafræna hæfni í skólum. Hægt er að nota vefkerfi SELFIE til að leggja fyrir kannanir í skólum meðal stjórnenda, kennara og nemenda til að meta stöðu varðandi stjórnun, tæknilega innviði, starfsþróun, stafræna hæfni og nýtingu stafrænnar tækni í námi og kennslu. Kerfið býr sjálfkrafa til niðurstöðuskýrslur sem byggja má aðgerðaáætlanir á og gagnast vel til að skipuleggja þróunarstarf og starfsþróun.

Í greininni er sagt frá samstarfs- og þróunarverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands um stafræna hæfni í skólastarfi. Markmið verkefnisins er að hvetja til umræðu um hvað felst í stafrænni hæfni og styðja við leiðbeinandi mat sem stuðlað getur að frekari þróun og breytingum.

Fjallað er um íslenska þýðingu og prófun SELFIE sjálfsmatsverkfærisins og greint frá fyrstu reynslu af notkun þess í íslenskum skólum. Nýting verkfærisins gefur vísbendingar um að það geti stutt við skólaþróun þar sem stafræn tækni kemur við sögu og ýtt undir umræðu og faglega ígrundun. Verkfærið hefur gagnast til að meta stöðu stafrænnar hæfni í skólum og gefið færi á samráði um starfs- og skólaþróun sem tengist stafrænni tækni. Gert er ráð fyrir áframhaldandi samstarfi og vinnu við aðgerðaáætlanir, mati á gagnsemi SELFIE verkfærisins og þýðingu fleiri verkfæra sem styðja við og efla stafræna hæfni í menntun.

Um höfund (biographies)

Svava Pétursdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Svava Pétursdóttir (svavap@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1989 og doktorsnámi frá University of Leeds 2012. Doktorsritgerð hennar bar titilinn Using information and communication technology in lower secondary science teaching in Iceland. Rannsóknir hennar eru á sviði upplýsingatækni í skólastarfi, starfsþróun kennara og náttúrufræðimenntunar. ORCID ID: https://orcid.org/0000-0002-1206-8745

Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir

Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir (thorbjorgst@reykjavik.is) deildarstjóri Mixtúru, sköpunar og upplýsingatæknivers hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Hún lauk B.Ed-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1992 og Dipl.Ed gráðu í upplýsingatækni og menntun 1999. Þorbjörg hefur áralanga reynslu af samstarfs- og þróunarverkefnum sem mörg hver tengjast stafrænni tækni í skólastarfi. Rannsóknaáhugi hennar snýr einkum að markvissri og framsækinni notkun stafrænnar tækni í skólastarfi, stafrænni hæfni og starfsþróun kennara.

Sólveig Jakobsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

Sólveig Jakobsdóttir (soljak@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk M.Ed.-prófi 1989 frá University of Minnesota og doktorsprófi frá sama skóla 1996 í kennslufræðum með áherslu á tölvunotkun í menntun. Sólveig hóf störf við Kennaraháskóla Íslands 1997 og hefur stýrt Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun frá stofnun stofunnar 2008. Rannsóknir hennar og kennsla hafa snúið að upplýsingatækni í námi og kennslu og fjar- og netnámi. ORCID ID: https://orcid. org/0000-0002-4205-0888.

Niðurhal

Útgefið

2022-12-13

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar