Netkennsla og stafræn tækni í grunnskólum á tímum farsóttar vorið 2020: Sýn kennara

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2021.16

Lykilorð:

blönduð kennsla, netkennsla, stafræn tækni, skólaþróun, COVID-19 faraldur

Útdráttur

Á vormánuðum 2020 urðu miklar takmarkanir á grunnskólastarfi hér á landi vegna faraldurs COVID-19, skólum var víða skipt í sóttvarnahólf, hópastærðir takmarkaðar, nemendahópar sendir heim um skemmri eða lengri tíma og kennsla á völdum greinasviðum lögð af um skeið. Menntavísindasvið og Menntavísindastofnun Háskóla Íslands stóðu af þessu tilefni fyrir viðamikilli könnun á öllum skólastigum til að meta áhrif faraldursins á menntun og skólastarf. Hér er fjallað um þann hluta könnunarinnar sem sneri að notkun á stafrænni tækni á meðan hefðbundið skólastarf var skert með ýmsu móti þessa vormánuði og byggt á svörum 1550 kennara, sérkennara og leiðbeinenda við 151 grunnskóla. Markmið með þeim hluta könnunarinnar var að draga fram og rýna áhrif faraldursins á netnotkun og beitingu stafrænnar tækni í starfi grunnskóla. Í ljós kom að meirihluti svarenda taldi skólana vel búna stafrænum verkfærum og starfsliðið vel undir það búið að takast á við aukin tölvusamskipti, blandaða kennslu og netkennslu. Þó voru sumir þeirrar skoðunar, ekki síst í hópi kennara á yngri stigum, að ef la þyrfti búnað skóla og kunnáttu kennara á þessu sviði. Meirihluti kennara taldi að aðgengi nemenda að tækni heima fyrir dygði vel til samskipta og netnáms í faraldrinum en sumir kennarar, einkum á yngri stigum, virtust telja að nokkuð hefði skort á aðgengi að búnaði heima hjá nemendum. Niðurstöður sýna að miklar breytingar hafa orðið á kennsluháttum og nýtingu stafrænnar tækni meðan á faraldrinum hefur staðið. Skýrt kom í ljós aukning blandaðs náms og netnáms á unglingastigi, töluverð aukning á miðstigi og merkjanlegar breytingar allt niður á yngsta stig. Þá hafði faraldurinn bæði letjandi og hvetjandi áhrif á skapandi starf með hjálp stafrænnar tækni. Meirihluti svarenda taldi að reynslan í COVID-faraldrinum myndi breyta kennsluháttum í skólum þeirra til frambúðar. Þátttakendum þótti mikilvægt að búa kennara undir aukna netkennslu og umtalsverður áhugi kom fram á að sækja einingabært nám um hagnýtar leiðir í notkun tækni í námi og kennslu. Niðurstöður benda til að aðstæður kennara, kunnátta og færni séu með ýmsu móti og ef la þurfi greiningu á stöðu stafrænnar tækni í grunnskólum.

Um höfund (biographies)

Sólveig Jakobsdóttir, Háskóli Íslands

Sólveig Jakobsdóttir (soljak@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk M.Ed.-prófi 1989 frá University of Minnesota og doktorsprófi frá sama skóla 1996 í kennslufræði með áherslu á tölvunotkun í menntun. Sólveig hóf störf við Kennaraháskóla Íslands 1997 og hefur stýrt Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun frá stofnun stofunnar 2008. Rannsóknir hennar og kennsla hafa snúið að upplýsingatækni í námi og kennslu og fjar- og netnámi. ORCID ID: https:// orcid.org/0000-0002-4205-0888

Salvör Gissurardóttir, Háskóli Íslands

Salvör Gissurardóttir (salvor@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk cand.oceon.-prófi frá Háskóla Íslands 1981 og M.A.-prófi frá University of Iowa í námsefnisgerð og námshönnun með áherslu á tölvur í skólastarfi árið 1990. Salvör hefur starfað sem framhaldsskólakennari í Reykjavík og sem námsstjóri í tölvugreinum í grunnskólum og framhaldsskólum í Menntamálaráðuneyti og sem sérfræðingur í málefnum upplýsingasamfélagsins í Forsætisráðuneyti. Hún hóf störf við Kennaraháskóla Íslands árið 1991. Rannsóknir hennar og kennsla hafa tengst upplýsingatækni í námi og kennslu, opnu menntaefni (OER), netnámi, forritun, stafrænni sögugerð og tölvuleikjum. ORCID ID: https://orcid.org/0000-0001-5710-5151

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, Háskóli Íslands

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir (shk@hi.is) er aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi í uppeldis- og kennslufræði og diplómanámi í handmenntum frá Kennaraháskóla Íslands, B.A.-prófi í þrívíddarhönnun frá Camberwell College of Arts og meistaraprófi í myndlist/skúlptúr frá Wimbledon College of Art / Kingston University. Skúlína hefur starfað sem kennari og stjórnandi við grunn- og framhaldsskóla. Hún leggur stund á doktorsnám við HÍ. Helstu viðfangsefni hennar í kennslu og rannsóknum eru uppeldis- og menntunarfræði, list- og hönnunarmenntun, tæknimennt og upplýsingatækni í skólastarfi, fjölhátta læsi, menntastefna og framkvæmd hennar. ORCID ID: https://orcid.org/0000-0001-6817-5462

Svava Pétursdóttir, Háskóli Íslands

Svava Pétursdóttir (svavap@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1989 og doktorsnámi frá University of Leeds 2012. Doktorsritgerð hennar bar titilinn Using information and communication technology in lower secondary science teaching in Iceland. Rannsóknir hennar eru á sviði upplýsingatækni í skólastarfi, starfssamfélaga kennara og náttúrufræðimenntunar. ORCID ID: https://orcid.org/0000-0002-1206-8745

Torfi Hjartarson, Háskóli Íslands

Torfi Hjartarson (torfi@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hans beinast að skapandi vinnu með stafræna tækni í sveigjanlegu skólastarfi, námsefnisgerð og hönnun bygginga fyrir verkefnamiðað nám. Hann hóf sinn feril sem námsefnishöfundur, lauk meistaranámi frá University of Oregon 1991, stýrði Gagnasmiðju Kennaraháskóla Íslands, veitti Kennarafélagi Kennaraháskóla Íslands forystu og var í hópi ritstjóra sem stóð að stofnun Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun. ORCID ID: https://orcid.org/0000-0003-4382-6331

Niðurhal

Útgefið

2021-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar