Gagnagöt í spurningakönnunum meðal íslenskra unglinga

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2021.5

Lykilorð:

gagnagöt, HBSC, ESPAD, PISA

Útdráttur

Á Íslandi eru reglulega lagðar fyrir allmargar spurningakannanir um líðan unglinga, hegðun þeirra, umhverfi, nám og starf. Spurningalistarnir í þessum könnunum eru gjarnan langir og fela stundum í sér krefjandi svarverkefni. Þetta leiðir til hættu á kerfisbundnum gagnagötum sem geta bjagað niðurstöður. Í þessari grein eru gagnagöt í þremur unglingakönnunum; ESPAD, HBSC og viðhorfa- og bakgrunnsspurningalista PISA-könnunarinnar greind út frá staðsetningu spurningar og spurningaformi. Bæði athuguðum við brottfall þar sem svarandi hætti þátttöku áður en hann lauk við að svara listanum og gagnagöt sem hljótast af því að svarendur hoppa yfir spurningar. Hlutfall gagnagata er töluvert í öllum könnunum en breytilegt eftir staðsetningu, formi og efni spurninga. ESPAD-spurningalistinn virðist heldur of langur og PISA-spurningalistinn allt of langur fyrir markhópa kannananna. Í HBSC má greina nokkuð skýr tengsl á milli spurningaforma og líkinda á að svar vanti, sérstaklega hjá yngri svarendum. Það er of lítill breytileiki í spurningaformum í hinum könnununum til að hægt sé að greina áhrif spurningaforma frá áhrifum staðsetningar. Brottfall er minna úr HBSC en hinum könnununum, mögulega vegna þess að spurningaform eru fjölbreyttari. Gagnagöt vegna þess að svarendur hoppa yfir spurningar eru hins vegar ekki mikið færri þegar tillit er tekið til lengdar. Brottfall og tilhneiging til að hoppa yfir spurningar hefur skýr tengsl við kyn svaranda í öllum könnunum og bekk svaranda í HBSC. Í ESPAD má greina skýrt samband áhættuhegðunar sem spurt er um snemma í könnuninni við bæði líkur á að svarendur falli úr könnun og hoppi yfir spurningar. Það eru því nokkrar vísbendingar um að gagnagöt séu kerfisbundin og geti valdið umtalsverðum bjaga á niðurstöðum. Möguleikar á að stytta og einfalda kannanir eru teknir til umfjöllunar undir lok greinarinnar.

Um höfund (biographies)

Hans Haraldsson, Háskóli Íslands

Hans Haraldsson (haha@hi.is) er verkefnastjóri við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands.

Ingibjörg Kjartanasdóttir, Háskóli Íslands

Ingibjörg Kjartansdóttir (ik@hi.is) er verkefnastjóri við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

2022-02-08

Tölublað

Kafli

Ritstýrðar greinar