Hreyfing íslenskra grunnskólanema

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2021.8

Lykilorð:

hreyfing, íþróttaþátttaka, unglingar, efnahagsleg staða, fjölskyldugerð, búseta

Útdráttur

Gildi hreyfingar fyrir líkamlega og andlega heilsu er vel þekkt. Þrátt fyrir þá vitneskju dregur úr hreyfingu frá barnsaldri til unglingsára og almennt er hreyfingu ábótavant. Því er mikilvægt að kanna hreyfingu barna og unglinga með það fyrir augum að efla hana og sporna við hreyfingarleysi.

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna umfang líkamlegrar hreyfingar íslenskra grunnskólanema í 6., 8. og 10. bekk og tengsl hennar við kyn, aldur, uppruna, fjölskyldugerð, efnahag og búsetu. Sérstaklega var athugað hve hátt hlutfall nemendanna næði ráðlagðri 60 mínútna hreyfingu daglega.

Unnið var úr gögnum úr landskönnuninni Heilsa og lífskjör skólanema (Health Behavior in School-aged Children - HBSC) sem fór fram árið 2018. Alls tóku 6.102 nemendur í 6., 8. og 10. bekk úr 86 grunnskólum á landinu þátt í rannsókninni. Spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur og meðal annars var spurt um fjölda daga á viku sem þátttakendur stunduðu „líkamlega hreyfingu samanlagt í 60 mínútur eða meira á dag“. Þá var einnig spurt um kyn og bekkjardeild, efnahagslega stöðu fjölskyldu, uppruna foreldra, fjölskyldugerð og búsetu.

Að meðaltali stundaði nemendahópurinn líkamlega hreyfingu í 4,5 daga í viku. Einungis 21% nemenda náði viðmiði um ráðlagða daglega hreyfingu. Fleiri piltar en stúlkur náðu viðmiðum um hreyfingu og fleiri nemendur í 6. bekk samanborið við eldri nemendur. Nemendur sem tilheyrðu fjölskyldum með lakari efnahag, bjuggu ekki með báðum kynforeldrum, eða áttu foreldra af erlendum uppruna, náðu síður viðmiðum um ráðlagða hreyfingu. Ekki var munur á hreyfingu grunnskólanema eftir búsetu þeirra.

Vinna þarf að hreyfieflingu grunnskólanema með fræðslu um gildi hennar, daglegum hreyfistundum á skólatíma og markvissum íþróttatímum. Jafna þarf þátttöku barna í íþróttum utan skólans með aðkomu sveitarfélaganna. Fjölga þarf möguleikum til hreyfingar fyrir alla utan húss og innan í sveitarfélögum landsins.

Um höfund (biographies)

Þórdís Lilja Gísladóttir, Háskóli Íslands

Þórdís Lilja Gísladóttir (thg@hi.is) er dósent í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Sc.-gráðu í íþrótta- og heilsufræði frá University of Alabama árið 1985, MA-gráðu 2007 og PhD-gráðu árið 2015 frá Norwegian University of Science & Technology (NTNU). Rannsóknir hennar eru á sviði heilsu og líðanar ungmenna, hreyfifærni og gildi íþrótta og hreyfingar fyrir börn og unglinga.

Rúnar Vilhjálmsson, Háskóli Íslands

Rúnar Vilhjálmsson (runarv@hi.is) er prófessor í félagsfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og er jafnframt gestaprófessor við heilbrigðisvísindadeild Háskólans í Lundi, Svíþjóð. Hann lauk BA-prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 1982, meistaraprófi í félagsfræði frá Wisconsinháskóla í Madison árið 1984 og doktorsprófi í félagsfræði frá sama skóla árið 1993. Rannsóknir hans hafa meðal annars beinst að hollustu- og áhættuhegðun ungmenna, félagslegum stuðningi ungmenna og fullorðinna, geðheilsu fullorðinna og heilbrigðisþjónustunotkun ásamt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Vaka Rögnvaldsdóttir, Háskóli Íslands

Vaka Rögnvaldsdóttir (vakar@hi.is) er lektor í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk íþróttakennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999, B.Sc.-gráðu í hagfræði frá Auburn University Montgomery árið 2002, M.Sc.-gráðu árið 2011 og PhD-gráðu árið 2020 í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands. Síðastliðin ár hafa rannsóknir hennar aðallega beinst að svefni, hreyfingu og heilsu ungmenna.

Niðurhal

Útgefið

2022-02-08

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)