Svefnlengd íslenskra grunnskólanema
##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/serritnetla.2021.7Lykilorð:
svefn, svefnlengd, háttatími, ungmenni, félagsleg staðaÚtdráttur
Þrátt fyrir fjölda svefnrannsókna á undanförnum árum er enn margt á huldu um útbreiðslu svefnvenja meðal ungmenna. Nægur nætursvefn er mikilvægur fyrir þroska, heilsu og námsgetu ungs fólks. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort svefnlengd íslenskra skólanema samræmdist svefnráðleggingum, hver meðalsvefnlengd nemendanna væri og hver munur væri á tíðni ráðlagðs svefns og svefnlengd milli einstakra hópa nemenda.
Landskönnunin „Heilsa og lífskjör skólanema“ (HBSC) fór fram árið 2018 meðal nemenda í 6., 8. og 10. bekk. Alls svöruðu 7.159 nemendur á landinu öllu stöðluðum spurningalista. Nemendurnir voru meðal annars spurðir um háttatíma sinn og fótaferðartíma. Viðmið um nægilegan svefn voru borin saman við alþjóðlegar ráðleggingar ungmenna í 6. bekk (9–11 klst./nóttu), og fyrir nemendur í 8. og 10. bekk (8–10 klst./ nóttu).
Niðurstöður sýndu að um 30% nemenda í 6., 8. og 10. bekk ná ekki viðmiðum um ráðlagða svefnlengd á virkum dögum. Piltar náðu síður ráðlagðri svefnlengd en stúlkur, og 10. bekkingar mun síður en nemendur í yngri bekkjardeildum. Nemendur sem áttu foreldra af erlendum uppruna sváfu skemur og náðu síður ráðlögðum svefni en aðrir nemendur. Nemendur sem bjuggu með báðum lífforeldrum sínum sváfu lengur og fengu oftar ráðlagðan svefn en nemendur í öðrum fjölskyldugerðum. Þá kom í ljós að nemendur á höfuðborgarsvæðinu sváfu lengur og náðu frekar ráðlögðum svefni en nemendur af landsbyggðinni. Ekki var marktækur munur á lengd nætursvefns eftir efnahag fjölskyldunnar.
Umtalsverður hluti íslenskra ungmenna nær ekki nægum nætursvefni. Mikilvægt er að gefa nánari gaum að nætursvefni íslenskra ungmenna, einkum meðal þeirra ungmenna sem fá hvað stystan nætursvefn.