„Núna eru allir einhvern veginn rosa uppteknir og það er enginn sem svona heldur utan um krakkana“: Þörf á foreldrafræðslu: Sýn umsjónarkennara á miðstigi grunnskóla

Höfundar

  • Sigrún Helgadóttir
  • Hrund Þórarins Ingudóttir

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2021.3

Lykilorð:

foreldrar, börn, uppeldi, grunnskóli, kennarar, foreldrafræðsla og uppeldisráðgjöf

Útdráttur

Þær breytingar sem hafa orðið á fjölskyldulífi undanfarna áratugi hafa leitt af sér nýjar áskoranir í uppeldi barna. Þá upplifa margir foreldrar streitu vegna samhæfingar fjölskyldu- og atvinnulífs. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á áskoranir í uppeldi 10–13 ára barna að mati umsjónarkennara. Aukinheldur að skoða sýn þeirra á hlutverk og ábyrgð foreldra og umsjónarkennara á uppeldi sem og mat þeirra á þörf á stuðningi og uppeldisfræðslu fyrir foreldra. Tekin voru viðtöl við átta umsjónarkennara 5.–7. bekkja í grunnskólum. Helstu niðurstöður eru þær að miklar samfélagslegar kröfur eru gerðar til foreldra sem verða til þess að foreldrar eru mjög uppteknir. Umsjónarkennararnir finna fyrir kröfu frá foreldrum um að þeir styðji þá enn frekar en áður við uppeldi barna sinna. Umsjónarkennurunum finnst það varla vera sitt hlutverk, þeir séu hvorki menntaðir til þess né sé þeim mögulegt að bæta á sig fleiri verkefnum. Þeir vilja að foreldrar beri ábyrgð á og sinni uppeldi barna sinna. Þeir telja foreldra 10–13 ára barna hafa þörf á stuðningi og uppeldisfræðslu. Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að vera mikilvægt innlegg í umræðu um hlutverk og ábyrgð foreldra og kennara á uppeldi barna. Einnig ættu þær að nýtast við stefnumótun foreldrafræðslu og uppeldisráðgjafar, vera stuðningur fyrir þá sem vinna með foreldrum og með því vera mikilvægar fyrir foreldra og börn.

Um höfund (biographies)

Sigrún Helgadóttir

Sigrún Helgadóttir (sigrhelg@gmail.com) lauk BA-prófi í uppeldis- og menntunarfræði (2006) frá Háskóla Íslands, námi í kennsluréttindum í grunn- og framhaldsskóla (2008) frá Kennaraháskóla Íslands og MA-prófi í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf (2019) frá Háskóla Íslands. Sigrún hefur starfað sem umsjónarkennari á miðstigi og sem deildarstjóri/staðgengill skólastjóra en starfar nú sem verkefnastjóri við grunnskólann Flóaskóla.

Hrund Þórarins Ingudóttir

Hrund Þórarins Ingudóttir (hrundin@hi.is) er lektor í uppeldis- og menntunarfræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hrund lauk meistaraprófi (2008) og doktorsprófi (2015) í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands. Hrund stundaði nám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf við University of Minnesota sem hluta af doktorsnámi sínu. Helstu rannsóknarsvið Hrundar eru uppeldissýn foreldra – gildi þeirra, markmið og leiðir en einnig þróun foreldrafræðslu og uppeldisráðgjafar á Íslandi.

Niðurhal

Útgefið

2022-02-02

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar