Að þróa eigin kennslu í ljósi félagsmenningarlegra hugmynda um læsi: Starfstengd sjálfsrýni heyrandi íslenskukennara í kennslu nemenda með táknmál að móðurmáli

Höfundar

  • Karen Rut Gísladóttir

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2021.13

Lykilorð:

félagsmenningarlegt læsi, starfstengd sjálfsrýni, læsisatburðir, læsisiðjur, kennsla nemenda með táknmál að móðurmáli, ritun

Útdráttur

Í þessari grein segi ég frá þriggja ára starfstengdri sjálfsrýni (e. self-study) á eigin starfsháttum sem heyrandi íslenskukennari í kennslu nemenda með táknmál að móðurmáli. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða eigin kennslu út frá félagsmenningarlegum hugmyndum um læsi. Markmið rannsóknarinnar var að draga fram augnablik í kennslu til að skoða hvernig eigin viðhorf, aðstæður og kennsluhættir ýmist sköpuðu eða takmörkuðu tækifæri nemenda til að nýta eigin mál- og menningarauðlindir í íslenskunáminu. Fræðilegar undirstöður rannsóknar eru annarsvegar félagsmenningarlegar hugmyndir um læsi og hinsvegar félagsmenningarlegar hugmyndur um nám og kennslu nemenda með táknmál að móðurmáli. Hugmyndir um Orðræður með stóru O-i og fjöltáknun gegna mikilvægu hlutverki í að koma auga á undirliggjandi áherslur í kennslu og hvað hefur áhrif á störf kennara. Rannsóknargögn eru þátttökuathuganir, skrif í rannsóknardagbók, hálfopin viðtöl við foreldra og nemendur og verkefni nemenda.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að til að byggja kennslu á auðlindum nemenda hafi ég þurft að leggja mig fram um að greina mótsagnakenndar hugmyndir um læsi eins og þær birtust í hugsunum mínum sem og athöfnum og orðum innan skólaumhverfisins. Á þeim grunni gat ég farið að endurhugsa eigin starfshætti með það fyrir augum að skapa nemendum rými þar sem þeir gætu nýtt mál- og menningarauðlindir sínar í námi. Í þeirri vinnu áttaði ég mig á mikilvægi ritunar í íslenskunámi nemenda með táknmál að móðurmáli. Að lokum varpa niðurstöður rannsóknarinnar ljósi á mikilvægi stöðu minnar sem rannsakanda í því umbreytingarferli sem ég þurfti að fara í gegnum sem kennari til að bera kennsl á margvíslegar mál- og menningarauðlindir nemenda.

Um höfund (biography)

Karen Rut Gísladóttir

Karen Rut Gísladóttir (karenrut@hi.is) er prófessor í kennslufræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í íslensku með táknmál sem aukagrein árið 1998, prófi í uppeldis- og kennslufræðum árið 2000, M. Paed. í íslensku og kennslufræði árið 2001, meistaraprófi í læsisfræðum frá Wisconsin-háskóla í Bandaríkjunum 2005 og doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2011. Rannsóknir hennar beinast að félagsmenningarlegum skilningi á tungumáli og læsi, fjölmenningu og þróun kennara í starfi. Rannsóknaraðferðir eru starfendarannsóknir, starfstengd sjálfsrýni og eigindlegar aðferðir.

Niðurhal

Útgefið

2021-12-17

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar