Sköpunar- og tæknismiðjur í þremur grunnskólum: Framkvæmd og kennslufræði fyrstu skrefin

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2021.9

Lykilorð:

sköpun, sköpunarsmiðjur, eflandi kennslufræði, stafræn tækni, þróunarverkefni, menntabúðir

Útdráttur

Samtíminn er fullur af móthverfum sem fela í sér ógnir og tækifæri, álitamál og áskoranir. Nútímasamfélag kallar á skólastarf, þar sem nemendur eru virkir og skapandi þátttakendur, færir um að móta eigið nám. Þessi rannsókn segir frá fyrsta ári af þremur í þróunarverkefni þriggja grunnskóla í Reykjavík um sköpunar- og tæknismiðjur (e. makerspaces). Hún á að auka skilning á hvað þarf til að nýsköpun og hönnun í anda sköpunarsmiðja skjóti rótum í starfi grunnskóla og á hvaða uppeldis- og kennslufræði þar er byggt. Leitast er við að greina hvað helst einkenndi og hafði áhrif á innleiðingu tæknilausna, nemendavinnu og kennsluhátta í þeim anda. Byggt er á eigindlegri nálgun og reynt að fá innsýn í reynslu fólks, viðhorf og hugsun í verkefninu. Rannsóknargögn samanstanda af vettvangsathugunum, viðtölum við skólastjórnendur, verkefnisstjóra og teymi kennara í skólunum þremur, auk styrkumsóknar, upplýsingavefs og síðu Facebook- -hóps. Lýst er hvernig margir þættir spila saman og takast á við framgang verkefnisins ásamt tilraunum kennara á þeim grunni. Ekki síst er athygli beint að hugmyndum um kennslu og eflandi kennslufræði sem þar birtast eða búa að baki. Viðhorf og stuðningur skólastjórnenda, starf verkefnisstjóranna, viðhorf, reynsla og færni kennara, skilningur á verkefninu og mikilvægi þess, skipulag stundaskrár, samtal og samstaða eru þættir sem virðast skipta máli í innleiðingunni en einnig sérstaða einstakra skóla auk hefðar fyrir þemanámi þvert á greinasvið, teymiskennslu og skapandi starfi. Mörg uppbyggileg skref voru stigin á þessu fyrsta ári sem þarf að fylgja eftir með virku samtali og samvirkni þessara þátta.

Um höfund (biographies)

Svanborg R. Jónsdóttir

Svanborg Rannveig Jónsdóttir (svanjons@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1978 með íslensku og dönsku sem aðalgreinar. Hún lauk M.A.-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands 2005 með áherslu á nýsköpunarmennt. Árið 2011 lauk hún doktorsnámi frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og er titill doktorsritgerðar hennar The location of innovation education in Icelandic compulsory schools. Rannsóknir hennar snúast um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt, námskrárfræði, skapandi skólastarf, breytingastarf og starfstengda sjálfsrýni í kennaramenntun.

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir (shk@hi.is) er aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1982 og eins árs diplómanámi í handlistum frá sama skóla 1983. Hún lauk B.A.-prófi í þrívíddarhönnun frá Camberwell College of Art 1989 og M.A.-prófi í myndlist/skúlptúr frá Wimbledon College of Art / Kingston University. Skúlína hefur starfað sem kennari og skólastjórnandi á grunnskólaog framhaldsskólastigi. Hún leggur stund á doktorsnám við Háskóla Íslands. Kennsla hennar og rannsóknir eru á sviði list- og verkmenntunar, tæknimenntar, upplýsingatækni í menntun, fjölháttalæsi, stefnumótunar og skólaþróunar. ORCID ID:

Svala Jónsdóttir

Svala Jónsdóttir (svalaj@hi.is) er aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún er með próf í grafík og auglýsingateiknun frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og meistaragráðu í kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands. Hún hefur aðallega kennt verðandi leikskólakennurum, fyrst við Fósturskóla Íslands, en nú við Menntavísindasvið HÍ. Rannsóknir hennar hafa aðallega snúist um náttúrufræði og upplýsingatækni í leikskólum ásamt sköpun í skólastarfi.

Svava Pétursdóttir

Svava Pétursdóttir (svavap@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1989 og doktorsnámi frá University of Leeds 2012. Doktorsritgerð hennar bar titilinn Using information and communication technology in lower secondary science teaching in Iceland. Rannsóknir hennar eru á sviði upplýsingatækni í skólastarfi, starfssamfélaga kennara og náttúrufræðimenntunar.

Torfi Hjartarson

Torfi Hjartarson (torfi@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hans beinast að skapandi vinnu með stafræna tækni í sveigjanlegu skólastarfi og hönnun bæði námsgagna og bygginga fyrir verkefnamiðað nám. Hann hóf sinn feril sem námsefnishöfundur, lauk meistaranámi frá University of Oregon 1991, stýrði Gagnasmiðju Kennaraháskóla Íslands, veitti Kennarafélagi Kennaraháskóla Íslands forystu og var í hópi ritstjóra sem stóð að stofnun Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun.

Niðurhal

Útgefið

2021-09-21

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)

1 2 > >>