Staðbundin áhrif og hlutverk þekkingarsetra í nýsköpun og atvinnuþróun byggða

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2021.3

Lykilorð:

þekkingarsetur, þriggja, fjögurra og fimm þátta líkönin, kynjasjónarmið, menntun, rannsóknir, nýsköpun, atvinnuuppbygging, samfélög

Útdráttur

Þróun og uppbygging þekkingarsetra á landsbyggðinni hófst fyrir alvöru upp úr aldamótunum 2000 með því að stofnanir sem störfuðu á sviði fullorðinsfræðslu, þjónustu við fjarnema á háskólastigi og rannsókna söfnuðust saman undir einu þaki. Nú á dögum eru slík setur í hverjum landshluta, eru lík að uppbyggingu, starfa flest á sviði menntunar, menningar, rannsókna og nýsköpunar en nálgast viðfangsefni sín á ólíkan hátt. Hér verður gerð grein fyrir rannsókn þar sem skoðuð voru þrjú þekkingarsetur; Nýheimar v á Hornafirði, Þekkingarnet Þingeyinga með höfuðstöðvar á Húsavík og Háskólafélag Suðurlands á Selfossi, þar sem markmiðið var að kanna hvort staða þeirra og hlutverk gagnvart íbúum nærsamfélagsins hefði breyst frá því þau voru stofnuð. Við öflun gagna voru tekin einstaklings- og rýnihópaviðtöl og rafræn spurningakönnun lögð fyrir íbúa á starfssvæðum setranna. Við greiningu gagnanna var beitt þemagreiningu og þau þemu sem greind voru tengdust nærsamfélaginu, stöðu, hlutverki og mikilvægi þekkingarsetranna, orðræðunni um þau og menntun, rannsóknum og nýsköpun. Þemun voru síðan sett í samhengi við fræðilegan bakgrunn rannsóknarinnar sem var annars vegar þriggja þátta líkanið (e. triple helix model), sem lýsir samstarfi atvinnulífs, þekkingarsetra og sveitarstjórna og hins vegar fjögurra og fimm þátta líkönin (e. quadruple / quintuple helices models), sem bæta samfélagi og umhverfi við þriggja þátta líkanið. Hugmyndafræði líkananna snýr að því að tengja saman umhverfi, efnahag, samfélag og menningu og mynda þannig aðstæður sem geta skapað sjálfbær samfélög er sýna seiglu. Niðurstaðan er sú að þriggja þátta líkanið hefur einkennt starfsemi þekkingarsetranna en finna má breytingar á starfsemi þeirra í átt að samfélagslegum áherslum á sama tíma og vægi nýsköpunar minnkar. Þegar áhrif menntauppbyggingar í samfélögunum eru skoðuð kemur í ljós að þrátt fyrir að meirihluti þeirra sem ljúka háskólanámi séu konur virðist atvinnuuppbygging snúast um að skapa störf sem virðast henta körlum betur, s.s. í stóriðju og verklegum framkvæmdum.

Um höfund (biography)

Anna Guðrún Edvardsdóttir

Anna Guðrún Edvardsdóttir (arun@holar.is) starfar sem rannsakandi og alþjóðafulltrúi við Háskólann á Hólum. Þá er hún hluthafi í rannsóknar- og ráðgjafafyrirtækinu RORUM ehf. Rannsóknir Önnu snúast um uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni með sérstakri áherslu á uppbyggingu háskóla- og rannsóknastarfsemi og áhrif hennar á byggðaþróun, sjálfbærni og seiglu samfélaga auk rannsókna á stað og rými háskólamenntaðra kvenna til athafna í dreifðum byggðum.

Niðurhal

Útgefið

2021-04-15

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar