Menntun til sjálfbærni: staða Íslands

Höfundar

  • Bryndís Sóley Gunnarsdóttir
  • Sólveig María Árnadóttir
  • Bragi Guðmundsson
  • Ólafur Páll Jónsson

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.10

Lykilorð:

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sjálfbærni, menntun til sjálfbærrar þróunar, mannréttindi, kynjajafnrétti, menningarleg fjölbreytni og alheimsvitund

Útdráttur

Viðfangsefni þessarar greinar er hluti af samnorrænu verkefni sem unnið var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og hefur það að markmiði að kanna hvernig Norðurlöndunum hefur tekist að innleiða Heimsmarkmið 4.7 um menntun til sjálfbærrar þróunar. Rannsóknarsviðið er víðtækt en hér verður sérstaklega hugað að tveimur meginþáttum. Annars vegar er litið til þess hvað lög og reglugerðir segja um menntun til sjálfbærni á Íslandi og hins vegar eru tveir grunnskólar skoðaðir sérstaklega til þess að fá innsýn í hvernig þeir vinna að þeim þáttum sem falla undir markmið 4.7.

Gagnaöflun var tvenns konar. Annars vegar var gerð textagreining á lögum um grunnskóla, núgildandi Aðalnámskrá grunnskóla frá 2011, skólastefnum sex sveitarfélaga og skólanámskrám þátttökuskólanna tveggja. Hins vegar voru tekin þrjú rýnihópaviðtöl í sömu grunnskólum, það er Síðuskóla á Akureyri og Þelamerkurskóla í Hörgársveit.

Textagreiningin leiðir í ljós að í lögum um grunnskóla er lítið fjallað um hugtökin sjálfbærni, mannréttindi, kynjajafnrétti, menningarlega fjölbreytni og alheimsvitund, sem öll eru grundvallarhugtök í nefndu Heimsmarkmiði. Í Aðalnámskrá grunnskóla eru hins vegar sett fram metnaðarfull markmið í tengslum við þau. Sveitarfélögin sex leggja mismikla áherslu á hugtökin í skólastefnum sínum en innan beggja þátttökuskólanna virðist unnið metnaðarfullt starf í tengslum við þau. Þannig læra nemendur bæði um hugtökin í verki og í gegnum skipulögð verkefni í ólíkum námsgreinum þótt viðfangsefni sem falla undir umhverfismennt séu mest áberandi.

Um höfund (biographies)

Bryndís Sóley Gunnarsdóttir

Bryndís Sóley Gunnarsdóttir (bryndis.gunnars@hotmail.com) hefur lokið B.Ed.-prófi í kennarafræðum og M.Ed.-prófi í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri. Hún starfar sem umsjónarkennari á miðstigi í Brekkuskóla á Akureyri.

Sólveig María Árnadóttir

Sólveig María Árnadóttir (solveigmariaa@gmail.com) hefur lokið B.Ed.-prófi í kennarafræðum og M.Ed.-prófi í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri. Hún starfar sem verkefnastjóri markaðs- og kynningarmála við Háskólann á Akureyri.

Bragi Guðmundsson

Bragi Guðmundsson (bragi@unak.is) er prófessor í sagnfræði við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Rannsóknir hans á seinni árum hafa aðallega beinst að notkun grenndaraðferðar við kennslu og íslenskri skólasögu

Ólafur Páll Jónsson

Ólafur Páll Jónsson (opj@hi.is) er prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur m.a. ritað bækur og greinar um heimspeki menntunar og gagnrýna hugsun.

Niðurhal

Útgefið

2021-02-05

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar