Orðaforðakennsla með sögulestri fyrir börn með málþroskaröskun

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2020.4

Lykilorð:

Bein og óbein orðaforðakennsla, málþroski, málþroskaröskun, lestur sögubóka

Útdráttur

Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman áhrif beinnar og óbeinnar orðaforðakennslu hjá börnum með málþroskaröskun. Einkenni málþroskaröskunar er slök færni í tungumálinu, bæði í málskilningi og máltjáningu. Beina orðaforðakennslan fólst í að lesa sögubók og skoða hvort börn lærðu ný orð með því að útskýra og vinna sérstaklega með ákveðin markorð sem komu fyrir í textanum. Við óbeina kennslu var sama bók lesin án þess að staldra við markorðin eða útskýra þau. Þátttakendur voru tveir, báðir í elsta árgangi í leikskóla, og höfðu niðurstöður málþroskamælinga fyrir íhlutun sýnt slaka færni, bæði í málskilningi og máltjáningu. Kennslan fór fram í leikskóla barnanna fjórum sinnum í viku, í sex vikur. Niðurstöður leiddu í ljós að góður árangur náðist með þann orðaforða sem kenndur var með beinni kennslu. Orðaforði barnanna jókst hins vegar mun minna við óbeina kennslu. Sú þekking sem börnin höfðu tileinkað sér að lokinni íhlutun hélst að nokkru leyti mánuði eftir að íhlutun lauk. Mikilvægt er að lesa fyrir leikskólabörn og skapa aðstæður þar sem markvisst er verið að kenna ný orð. Jafnframt er nauðsynlegt að huga sérstaklega vel að börnum með slaka málfærni og auðvelda þeim að hlusta á sögu með því að útskýra orð jafnóðum. Þessar niðurstöður gefa vísbendingar um að til að auka orðaforða barna við sögulestur þurfi að útskýra ný orð sérstaklega. Foreldrar, kennarar og talmeinafræðingar geta ekki gert ráð fyrir að börn tileinki sér ný orð með því að heyra þau lesin í sögubók og geti sér til um þýðingu þeirra út frá samhengi.

Um höfund (biographies)

Sigrún Alda Sigfúsdóttir

Sigrún Alda Sigfúsdóttir (sigrunalda88@gmail.com) er talmeinafræðingur og starfar á Talsetrinu og hjá Reykjavíkurborg. Sigrún Alda lauk MS-prófi í talmeinafræði frá Háskóla Íslands árið 2018 og BA-prófi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 2012.

Jóhanna T. Einarsdóttir

Jóhanna T. Einarsdóttir (jeinars@hi.is) er talmeinafræðingur og dósent við Háskóla Íslands á Mennta- og Heilbrigðisvísindasviði. Hún lauk doktorsprófi frá Læknadeild Háskóla Íslands árið 2009. Rannsóknir Jóhönnu Thelmu hafa beinst að máltöku barna á leikskólaaldri, bæði mælingum á málþroska og íhlutun. Hún hefur einnig rannsakað stam, greiningu þess og meðferð hjá öllum aldurshópum.

Þorlákur Karlsson

Þorlákur Karlsson (thorlakur@ru.is) er sálfræðingur og dósent í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Hann er með doktorspróf í sálfræði frá West Virginia University (1990) með atferlisgreiningu sem aðalgrein en tölfræði og aðferðafræði sem aukagrein. Rannsóknir hans eru helst á sviði aðferðafræði rannsókna og launamunar kynja.

Íris Ösp Bergþórsdóttir

Íris Ösp Bergþórsdóttir (iob@hi.is) stundar doktorsnám við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, rannsókn hennar snýr að meðferðarheldni í foreldramiðaðri stamrannsókn á börnum. Hún lauk MS-prófi í Viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og BS-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2001. Rannsóknir hennar eru helst á sviði meðferðarheldnis og frammistöðumatsmælinga.

Niðurhal

Útgefið

2020-07-13

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)