Rafrænar námssöguskráningar í leikskóla

Höfundar

  • Bergþóra F. Einarsdóttir
  • Margrét Sigríður Björnsdóttir

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.5

Lykilorð:

leikskóli, námssögur, upplýsingatækni, starfendarannsókn

Útdráttur

Í þessari grein er fjallað um samstarfsrannsókn sem fram fór í einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þátttakendur í leikskólanum voru fimm ásamt meistaranema og kennara frá Menntavísindaviði Háskóla Íslands. Rannsóknin er hluti af samstarfsverkefni RannUng (Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna) og fimm leikskóla víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Rannsóknin bar vinnuheitið Mat á námi og vellíðan barna en samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2012) ber starfsfólki leikskóla að meta nám og vellíðan barna og var markmiðið með rannsókninni að þróa matsaðferðir í leikskólastarfi í þeim tilgangi. Þátttakendur hvers leikskóla höfðu frjálsar hendur varðandi val á áherslum og aðferðum. Í öllum leikskólunum var unnið með námssöguskráningar en þátttakendur í umræddum leikskóla völdu þá leið að þróa mat á námi og vellíðan barna með rafrænum námssöguskráningum. Fyrir valinu varð forritið Book Creator þar sem þátttakendur þekktu það og höfðu unnið með það í spjaldtölvum. Leikskólinn er heilsuleikskóli og er skráning í Heilsubók barnsins helsta matsaðferð hans. Þátttakendur völdu að kanna hvort rafræn námssöguskráning myndi henta vel með Heilsubók barnsins og styðja við skráningar í hana. Gagnaöflun fór fram með viðtölum bæði við upphaf og lok rannsóknarinnar, skráningu í rannsóknardagbók, vettvangsathugunum og fundargerðum ásamt rafrænum námssöguskráningum. Niðurstöður benda til þess að þátttakendur í leikskólanum hafi öðlast aukna færni í rafrænum námssöguskráningum. Þó nokkrar hindranir urðu á vegi þátttakenda en tæknileg atriði og tímaskortur léku þar stórt hlutverk. Leikskólastjórinn benti á að námssöguskráningarnar væru viðbót við það sem fyrir væri og að hann sæi ekki fram á, miðað við tímaskort og fáa undirbúningstíma leikskólakennara, að námssöguskráningarnar myndu festa sig í sessi. Hann sagðist þó vera viss um að eitthvað af starfsfólkinu myndi halda áfram að skrá rafrænar námssögur en var ekki viss um hversu markvisst það yrði. Aðrir þátttakendur lýstu yfir áhuga á að halda áfram skráningu á rafrænum námssögum eftir að verkefninu lyki og þá sérstaklega til að nota í foreldraviðtölum. Því er ekki hægt að tala um að innleiðing hafi átt sér stað nema að fremur afmörkuðu leyti.

Um höfund (biographies)

Bergþóra F. Einarsdóttir

Bergþóra Fanney Einarsdóttir (bergthorafe@gmail.com) starfar sem leikskólakennari í Leikskóla Seltjarnarness. Hún útskrifaðist sem leikskólakennari frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands vorið 2019 og með B.Ed. gráðu í leikskólakennarafræðum vorið 2016 frá sama skóla.

Margrét Sigríður Björnsdóttir

Margrét Sigríður Björnsdóttir (margreb@hi.is) er aðjúnkt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og verkefnisstjóri hjá RannUng. Hún lauk grunnskólakennaraprófi frá KHÍ 1989 og M.Ed.-prófi frá Háskólanum í Reykjavík 2009 í stærðfræði og kennslufræði stærðfræðinnar. Margrét hefur starfað bæði í leik- og grunnskóla.

Niðurhal

Útgefið

2020-03-19