Álitamál tengd innleiðingu hæfnimiðaðs námsmats í skyldunámi

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.44

Lykilorð:

námskrárinnleiðing, námsmat, hæfni, hæfniviðmið, lokamat, leiðsagnarmat

Útdráttur

Rannsóknastofa um námskrár, námsmat og námsskipulag stóð fyrir tveimur málþingum um námskrár og námsmat á vordögum 2019. Gestur fyrra málþingsins var hollenski námskrárfræðingurinn Jan van den Akker og á seinna málþinginu fluttu fimm hérlendir sérfræðingar erindi um innleiðingu nýs námsmatskerfis í skyldunámi. Undanfarin misseri hefur átt sér stað umræða um þetta kerfi eins og það var kynnt í núgildandi aðalnámskrá fyrir skyldunám. Skotið hafa upp kollinum áhugaverð álitamál og spurningar þessu tengdar. Þar má í fyrsta lagi nefna spurninguna um miðlæga samræmingu hæfniviðmiða og mats. Í öðru lagi beinast augu manna að faglegri ábyrgð kennara og um leið vaxandi vinnuálagi þeirra við námsmat sem er samofið námi og kennslu. Í þriðja lagi þarf að gefa nýjum hugtökum gaum og beitingu þeirra eða öllu heldur nýjum orðum yfir kunnugleg hugtök. Í fjórða lagi koma við sögu gamalkunnar hugmyndastefnur í námskrárfræðum og áhrif þeirra á setningu markmiða og hæfniviðmiða. Loks hafa vaknað spurningar um samband leiðsagnarmats og lokamats og aðferðir þar að lútandi. Markmið greinarinnar er að rýna nánar í þessi álitamál með vísan í rannsóknir og kenningar annars vegar og hins vegar erindi þeirra sem töluðu á málþingunum. Meginniðurstaða höfundar er að víðtækt mat á hæfni hljóti að stuðla að auknu réttmæti og þar með sanngjarnara mati öllum til meiri hagsbóta en áður tíðkaðist. Að sama skapi krefst framkvæmd slíks mats aukinnar matsfræðiþekkingar og faglegrar ábyrgðar kennara og stjórnenda. Um leið má þó ljóst vera að viðmið um hæfni og mat í hinu nýja kerfi eru á margan hátt óljós og því auknar líkur á ósamræmi í mati frá einum skóla til annars.

Um höfund (biography)

Meyvant Þórólfsson

Meyvant Þórólfsson (meyvant@hi.is) er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk meistaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 2002 og doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2013. Helstu viðfangsefni og rannsóknarefni hans eru á sviði námskrárfræða og námsmats. Meyvant hefur einnig tekið þátt í rannsóknum og þróunarverkefnum á sviðum stærðfræði og náttúruvísinda í íslensku skólakerfi.

Niðurhal

Útgefið

2020-02-25

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar