Stafrænt sambýli íslensku og ensku

Höfundar

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.29

Lykilorð:

málsambýli, skjánotkun, máltaka, málbreytingar, ílag, viðhorf

Útdráttur

Markmið öndvegisverkefnisins Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis, sem lýst er í þessari grein, er að kanna stöðu íslensku á tímum mikilla samfélags- og tæknibreytinga, með sérstöku tilliti til hugsanlegra áhrifa ensku, einkum í gegnum stafræna miðla. Í fyrsta lagi er reynt að komast að því hversu mikið mállegt ílag eða máláreiti málnotendur fá, bæði á íslensku og ensku. Í öðru lagi er viðhorf málnotenda kannað, bæði til íslensku og ensku. Í þriðja lagi er orðaforði þátttakenda kannaður, bæði íslenskur og enskur. Í fjórða lagi eru þátttakendur beðnir að leggja mat á ýmis málfræðileg atriði, t.d. beðnir að dæma margvíslegar setningar, og þannig reynt að komast að því hvort aukin enskunotkun í íslensku málsamfélagi nú til dags valdi breytingum á íslensku eða hraði málbreytingum sem hafnar voru fyrir daga snjalltækjabyltingarinnar.

Þessi atriði eru könnuð með fernu móti: Í fyrsta lagi með ítarlegri vefkönnun sem send var til 5.000 manna lagskipts handahófskennds úrtaks Íslendinga á aldrinum 3?98 ára. Í öðru lagi með frekari könnunum og viðtölum við 400 manna sérvalið úrtak úr fyrrnefnda hópnum. Í þriðja lagi verður vefkönnunin opnuð öllum sem vilja og reynt með hjálp samfélagsmiðla að fá allt að 10% landsmanna til þátttöku. Í fjórða lagi eru svo rýnihópar og viðtöl við kennara.

Vefkönnuninni er lokið og verið er að vinna úr niðurstöðum hennar. Fyrstu niðurstöður benda til þess að verulegur munur sé á aldurshópum hvað varðar alla þá meginþætti sem kannaðir voru — ílag, viðhorf, orðaforða og mat á setningum. Nú er unnið að úrvinnslu gagna þannig að unnt verði að gera ítarlega grein fyrir ýmsum þáttum niðurstaðnanna og skoða hugsanlega fylgni milli þátta, t.d. milli ílags, viðhorfa og ýmissa mállegra þátta. Í þessari grein er fjallað um meginmarkmið verkefnisins, rannsóknaraðferðir og niðurstöður úr vefkönnun um skjá- og netnotkun barna, svo og um virka og óvirka enskunotkun þeirra.

Um höfund (biographies)

Sigríður Sigurjónsdóttir

Sigríður Sigurjónsdóttir (siggasig@hi.is) er prófessor í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá University of California í Los Angeles árið 1992 og hefur starfað við Háskóla Íslands frá 1994, sem prófessor frá 2010. Sérsvið hennar er máltaka barna, einkum frá setningafræðilegu sjónarmiði, og málbreytingar og hún hefur birt fjölmargar ritrýndar greinar á því sviði.

Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson (eirikur@hi.is) er prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann lauk cand.mag.-prófi í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands haustið 1982 og var fastur kennari við skólann frá ársbyrjun 1986 til miðs árs 2018 – prófessor frá 1993. Hann hefur fengist við rannsóknir á ýmsum sviðum, einkum samtímalegri og sögulegri setningafræði, svo og gagnamálfræði og máltækni.

Niðurhal

Útgefið

2018-12-31

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar