Sköpun skiptir sköpum: Viðhorf tungumálakennara til skapandi kennsluhátta

Höfundar

  • Ásta Henriksen

##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.8

Lykilorð:

sköpun, áhugahvöt, grunnþættir menntunar, námsmat, tungumálanám

Útdráttur

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna viðhorf nokkurra tungumálakennara í framhaldsskólum til skapandi kennsluhátta. Skoðað var hvað það væri sem einkenndi helst skapandi kennsluhætti þessara kennara, hvort þeim fyndist mikilvægt að búa til tækifæri fyrir nemendur til að vera skapandi og hvers konar kennsluaðferðum þeir beittu helst. Einnig var athugað hvort eitthvað stæði í vegi fyrir því að þeir beittu skapandi kennsluaðferðum og hvað þá helst. Leitast er við að skilgreina hugtakið sköpun og fjallað er um sköpun í ljósi hugmynda fræðimannanna John Dewey, Lev Vygotsky, Elliot Eisner og Mihaly Csikszentmihalyi um nám og sköpun. Rannsóknin er hluti af rannsókninni Starfshættir í framhaldsskólum og byggist á sjö viðtölum og jafnmörgum vettvangsathugunum hjá tungumálakennurum úr þeirri rannsókn. Auk þess tók rannsakandi fjögur viðtöl til viðbótar og gerði tvær vettvangsathuganir.

Helstu niðurstöður eru þær að flestum kennurunum finnst mikilvægt að hlúa að sköpun, sem er grunnþáttur í menntun á Íslandi, meðal annars vegna þess að skapandi aðferðir vekja áhuga, þær stuðla að auknu sjálfstrausti nemenda og gera þá betur í stakk búna til að takast á við verkefni sem bíða þeirra í framtíðinni. Nota þeir að sögn fjölbreyttar aðferðir sem gefa nemendum þeirra tækifæri til að vera skapandi. Hins vegar er ýmislegt sem stendur í vegi fyrir því að þeir noti slíkar aðferðir eins mikið og þeir vilja. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að til að koma til móts við aðalnámskrá varðandi sköpun í námi þurfi að efla skapandi nálgun í tungumálanámi í framhaldsskólum. Auka þarf sjálfstæði nemenda og svigrúm kennara til samstarfs, bæði innan deilda og milli deilda, auk þess sem hlúa þarf að menntun og endurmenntun kennara.

Um höfund (biography)

Ásta Henriksen

Ásta Henriksen (asta@verslo.is) er framhaldsskólakennari við Verzlunarskóla Íslands. Hún lauk B.A.-prófi í ensku, uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda og M.A.-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands. Ásta hefur lengst af kennt ensku við Verzlunarskóla Íslands og tekið þátt í ýmsum skólaþróunarverkefnum. Fagleg áhugamál hennar lúta m.a. að þróun skapandi kennsluhátta með aukinni þátttöku nemenda í eigin námi.

Niðurhal

Útgefið

2020-02-03