Ólíkur félagslegur og menntapólitískur veruleiki íslenskra framhaldsskóla: Nám til stúdentsprófs í 20 ár af sjónarhóli framhaldsskólakennara og -stjórnenda
##plugins.pubIds.doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/serritnetla.2019.12Lykilorð:
framhaldsskóli, skólaval, markaðsvæðing, kennarar, stjórnendur, starfsaðstæðurÚtdráttur
Lengi framan af var framhaldsskólamenntun til stúdentsprófs aðeins fyrir fáa útvalda úr efri lögum samfélagsins. Með tímanum jókst aðgengið og nú er framhaldsskólum á Íslandi skylt að mennta öll ungmenni undir 18 ára aldri sem lokið hafa grunnskólaprófi. Stór hluti þeirra þreytir stúdentspróf. Nám til stúdentsprófs hefur þróast og breyst undanfarna áratugi og þar kemur ekki eingöngu til stækkandi hópur nemenda sem sækja framhaldsskólann heldur ekki síður tilteknir alþjóðlegir menntastraumar og samfélagsbreytingar sem hafa sett mark sitt á kerfið. Þessar breytingar hafa snert framhaldsskólana og starfsaðstæður innan hvers þeirra en þó með misjöfnum hætti. Með þessari rannsókn var ætlunin að skoða starfsaðstæður kennara og stjórnenda; a) hvort og þá hvernig þær hefðu breyst á 20 ára tímabili, b) hvort og þá hvernig hugmyndir viðmælenda mörkuðust af ólíku félagslegu samhengi og markaðsstöðu skóla og c) hvort munur væri á upplifun kennara annars vegar og stjórnenda hins vegar. Rannsóknin byggðist á einstaklingsviðtölum við átta reynda kennara og stjórnendur í fjórum íslenskum framhaldsskólum. Val á framhaldsskólum í rannsókninni miðaðist við skóla með annaðhvort hátt eða lágt höfnunarhlutfall við inntöku. Í ljós kom verulegur munur milli skóla eftir höfnunarhlutfalli. Stefnubreytingar stjórnvalda varðandi styttingu og fræðsluskyldu orkuðu ólíkt á skóla eftir markaðsstöðu þeirra þó að allir viðmælendur hafi verið neikvæðir gagnvart henni. Hins vegar voru aðrar breytingar sem orkuðu með svipuðum hætti á viðmælendur, eins og aukið álag og foreldrasamstarf og almenn ánægja með hækkun sjálfræðisaldurs. Munur á skoðunum og viðhorfum kennara og stjórnenda var lítill og frekar að skoðanir væru skiptar milli skóla en milli viðmælenda innan sama skóla.Niðurhal
Útgefið
2020-02-03
Tölublað
Kafli
Ritrýndar greinar